Þinn staður – okkar bær

Fréttir

Mars er tileinkaður hönnun og skipulagi í Hafnarfirði. Vinnustofan „Þinn staður – okkar bær“ stendur yfir í Hafnarborg til 3. apríl. Allir áhugasamir um framtíð Hafnarfjarðar eru hvattir til að mæta og taka virkan þátt.

Mars er tileinkaður hönnun og skipulagi í Hafnarfirði. Vinnustofan „Þinn staður – okkar bær“ var opnuð í Hafnarborg miðvikudaginn 9. mars og stendur hún yfir til 3. apríl.  Þar eru til sýnis þær hugmyndir og sviðsmyndir sem lagðar hafa verið til í skipulagi Hafnarfjarðarbæjar til framtíðar m.a. í tengslum við skýrslu um þéttingu byggðar og Flensborgarhöfn

Skipulagssýning í Hafnarborg

Skipulag og hönnun umhverfis skiptir okkur öll miklu máli enda um að ræða þætti sem geta haft mikil áhrif fyrir það mannlíf sem ætlað er að dafna á hverjum stað. Mikilvægt er að sem flestar raddir fái að hljóma í skipulagsvinnunni og tekið sé tillit til óska þeirra sem eiga að gæða hið byggða umhverfi lífi með nærveru sinni. Í opnum vinnustofum og samtali í Hafnarborg í mars gefst almenningi tækifæri til að ræða áherslur skipulagsyfirvalda og koma með ábendingar um það sem vel er gert og hvað má bæta. Í Sverrissal Hafnarborgar verður rýnt í það sem er efst á baugi í framkvæmdum og skipulagsmálum í miðbæ Hafnarfjarðar og aðliggjandi svæðum.

Við getum öll haft áhrif – grasrótarhlustun

Umhverfis- og skipulagsþjónusta Hafnarfjarðar, Hafnarborg og Markaðsstofa Hafnarfjarðar standa sameiginlega að sýningunni og opnum vinnustofum þar sem helstu framkvæmdir og skipulagsverkefni í miðbæ Hafnarfjarðar og nágrenni hans verða kynnt. Samþætting grasrótarstarfs og starfs skipulagsyfirvalda verður skoðuð sérstaklega með aðstoð frá Mariu Lisogorskaya frá Assemble vinnuhópnum sem hlaut Turnerverðlaunin síðastliðið haust. Maria verður með sérstaka vinnustofu í Hafnarborg miðvikudaginn 11. mars. Vinnustofan er hluti af Hönnunarmars.


Dagskrá skipulagssýningar í mars

  • Miðvikudagur 9. mars kl. 17. Opnun vinnustofu, stutt kynning
  • Fimmtudagur 10. mars kl. 20.  Ganga um græn svæði. Þráinn Hauksson landslagsarkitekt leiðir göngu, segir frá gönguvænu umhverfi og mikilvægi grænna svæða við þéttingu byggðar. Gengið frá Hafnarborg
  • Föstudagur 11. mars kl.13 – 17. Vinnustofa um Strandgötu og miðbæinn. Maria Lisogorskaya frá Assemble hópnum í London leiðir vinnustofu um miðbæ Hafnarfjarðar, hvernig má virkja gæði í umhverfinu og nálgast þróun á forsendum bæjarins. Þáttakendur skrá sig með tölvupósti á magnea@gmail.com
  • Laugardagur 12. mars kl. 13-15. Spurt og svarað. Fulltrúi skipulags svarar spurningum gesta um verkefnin á sýningunni
  • Sunnudagur 13. mars kl. 13-15. Módel af Strandgötu. Fimm metra langt módel af Strandgötu verður smíðað úr pappa og myndskreytt. Börn og fullorðnir á öllum aldri hvattir til að mæta.
  • Þriðjudag 15. mars kl. 20. Úthverfi eða bæjarbragur? Samtal um framtíðaruppbyggingu í Hafnarfirði. Hrafnkell Proppé svæðisskipulagsstjóri kynnir Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins 2040 sem var samþykkt 2015 og starfshópur á vegum Hafnarfjarðarbæjar kynnir nýútkomna skýrslu um möguleika uppbyggingar í Hafnarfirði. Allir íbúar og áhugafólk um framtíð Hafnarfjarðar eru sérstaklega hvattir til að mæta.
  • Miðvikudagur 16. mars kl. 20. Borgarlína – gönguferð. Lilja G. Karlsdóttir samgönguverkfræðingur leiðir göngu um mögulega Borgarlínu framtíðarinnar. Gengið frá Hafnarborg.
  • Fimmtudag 17. mars kl. 17-19. Miðbær morgundagsins. Markaðsstofa Hafnarfjarðar býður rekstrar- og hagsmunaaðilum í miðbænum til fundar um framtíð svæðisins. Kári Eiríksson arkítekt opnar umræðuna. Þátttakendur skrá sig með tölvupósti á asa@msh.is.
  • Laugardagur 19. mars kl. 13. Flensborgarhöfn í þróun. Magnea Guðmundsdóttir verkefnastjóri kynnir lýsingu á skipulagsverkefni Flensborgarhafnar sem hefur staðið yfir í rúmt ár
  • Fimmtudagur 31. mars kl. 20. Skipulag hversdagsleikans. Stas Zawada ljósmyndari sýnir og segir frá Hafnarfirði hversdagsins í gegnum myndir sínar og Þormóður Sveinsson skipulagsstjóri fjallar um aðlögun og þróun umhverfis okkar í samtali við Ágústu Kristófersdóttur forstöðumanns Hafnarborgar
  • Laugardag 3. apríl kl. 13-15. Spurt og svarað. Fulltrúi skipulags svarar spurningum gesta um verkefnin á sýningunni


Viðburðir sem auglýstir verða síðar
 

  • Stefna í Hafnarmálum. Gísli Gíslason formaður Hafnarsambandsins, Már Sveinbjörnsson hafnarstjóri Hafnarfjarðarhafnar og fleiri ræða framtíð hafnarsvæða á suðvesturhorni landsins
  • Hreyfiprentstofan mun mæta og prenta sérhönnuð veggspjöld í tengslum við vinnustofuna.

Allir íbúar og áhugafólk um framtíð Hafnarfjarðar eru hvattir til að mæta í Hafnarborg í mars og taka virkan þátt í vinnustofum sem snúa að skipulagsmálum Hafnarfjarðar. 

Nánari upplýsingar á www.hafnarborg.is

Ábendingagátt