Þinn staður, okkar umhverfi við Flensborgarhöfn

Fréttir

Iðandi mannlíf einkennir hafnarsvæði víða um heim. Fjölbreytt atvinnulíf og ýmis þjónusta laða að sé fólk á öllum tímum dagsins allt árið.

Iðandi mannlíf einkennir hafnarsvæði víða um heim. Fjölbreytt atvinnulíf og ýmis þjónusta laða að sé fólk á öllum tímum dagsins allt árið. Flensborgarhöfn á sér langa sögu en nú stendur yfir undirbúningsvinna vegna nýs skipulags á svæðinu við smábátahöfnina sem er skilgreint sem blanda af hafnarsvæði og verslunar- og þjónustusvæði.

Í Sverrissal verður komið fyrir kortum, uppdráttum, ljósmyndum og teikningum sem tengjast svæðinu. Hægt verður að kynna sér sögu staðarins, skýrslur og annað myndrænt efni sem notast er við í skipulagsgerð. Á stóru korti eru gestir hvattir til að leggja sitt til umræðunnar.

Boðið er upp á opna vinnustofu og hugmyndapott um framtíð svæðisins. Þetta er áhugavert verkefni fyrir alla sem áhuga hafa á skipulagsmálum og mannlífi og eru íbúar Hafnarfjarðar sérstaklega hvattir til að kynna sér vinnuna, taka þátt og koma hugmyndum sínum á framfæri.

Í tengslum við vinnustofuna verður efnt til gönguferða, haldnar verða kynningar og opnir fundir.

Umsjón með verkefninu hefur Magnea Guðmundsdóttir arkitekt en hún hefur unnið að undirbúningi skipulags Flensborgarhafnar fyrir skipulags – og byggingasvið Hafnarfjarðarbæjar.

Meira um verkefnið hér.

Verið velkomin á opnun vinnustofu og kynningarfund um skipulag og þróun mannlífs við Flensborgarhöfnina fimmtudaginn 21.maí kl. 17.00 í Hafnarborg.

Ábendingagátt