Menntastefna Hafnarfjarðar

 

Framtíðarsýn

Í skóla- og frístundastarfi er lögð áhersla á  vellíðan, félagslegt öryggi og sjálfstæði.  Borin er virðing fyrir ólíkum lífsháttum og  fjölbreytni. Hvetjandi aðstæður séu til frístunda og náms sem styðja við frumkvæði, samvinnu og skapandi hugsun. Börn fái tækifæri til þess að þróa hæfileika sína í gegnum leik og störf á eigin forsendum og njóta stuðnings til að þroskast og dafna. Leiðarljós menntastefnu eru í grunninn fjögur. Það eru sköpun, fjölbreytileiki, vellíðan og samvinna og búið að marka áherslur fyrir hvert og eitt leiðarljós sem eiga beina skírskotun í bæði Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Leiðarljós menntastefnu

  1. Sköpun

    Við leggjum áherslu á að börn fái tækifæri til að þroskast í gegnum leik, frístundir og skapandi skólastarf. Með frumkvöðlastarfi, tækni og listsköpun finnum við nýjar leiðir í skóla- og frístundaumhverfinu og þróum þær áfram.

    Áherslur

    • Bjóða upp á margvíslegar leiðir sem koma til móts við fjölbreyttar þarfir barna
    • Virkja sköpunarkraft í skóla- og frístundastarfi í gegnum nýsköpun, frumkvöðlastarf og upplýsingatækni

     

  2. Fjölbreytileiki

    Við berum virðingu fyrir öllum einstaklingum og lífsháttum og leggjum áherslu á að námsumhverfi endurspegli margbreytileika mannlífsins. Fjölbreyttar kennsluaðferðir styðji við jafnræði, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi.

    Áherslur

    • Virða ólíka lífshætti og skoðanir með því að efla þekkingu, aðlögunarhæfni og sveigjanleika
    • Leggja áherslu á jákvætt viðmót í skóla- og frístundastarfi, efla sjálfsþekkingu og sjálfstæða hugsun barna í uppbyggilegu námsumhverfi

  3. Vellíðan

    Við leggjum áherslu á öruggt námsumhverfi og aðstæður til leiks og starfs svo börn öðlist trú á eigin getu , eflist og byggi upp seiglu. Snemmbær stuðningur, forvarnir og valdefling leggi grunn að vellíðan og velferð allra.

    Áherslur

  4. Samvinna

    Við byggjum upp námssamfélag með þátttöku allra. Samvinna stuðli að lýðræðislegri virkni og tengslum. Þverfagleg samvinna og teymi styðji við framþróun og nýjar nálganir.

    Áherslur

    • Efla teymisvinnu og þverfaglegt samstarf í skóla- og frístundastarfi til að undirbyggja öflug námssamfélög.

Forsagan

Undirbúningur við mótun menntastefnu Hafnarfjarðar hófst í janúar 2019 með tilnefningu menntaleiðtoga úr hverjum leik- og grunnskóla og stofnun starfshóps sem hafði það hlutverk að skilgreina verkefnið, tímalínu þess, skipulag, bjargir, framkvæmd og uppbyggingu. Í stýrihópi sátu einn kjörinn fulltrúi frá hverjum flokki í bæjarstjórn, sviðsstjóri mennta- og lýðheilsusviðs, þróunarfulltrúi leikskóla, þróunarfulltrúi grunnskóla og íþrótta- og tómstundafulltrúi. Ráðgert var að hefja vinnu við gerð stefnunnar sjálfrar á árinu 2020 en heimsfaraldur hafði þar mikil áhrif.  Aðkallandi verkefni skólanna umbreyttust og starfsumhverfið í heild sinni sem seinkaði vinnu við menntastefnu. Stefnan var unnin í víðtæku samráði á tímabilinu 2019-2024 með þátttöku starfsfólks, nemenda, foreldra/forsjáraðila og hagsmunahópa. Þátttakendur voru um 700 talsins.

Innihald stefnu

Lagt var upp með að stefnan skyldi taka mið af verkefnum alls mennta- og lýðheilsusviðs í víðum skilningi og tæki m.a. til forvarna og vellíðan, lýðheilsu, íþrótta og tómstunda. Stefnan á að ná til allra barna og ungmenna hjá dagforeldrum, í leik- og grunnskólum, tónlistarskóla, frístundaheimilum, tómstundamiðstöðvum og félagsmiðstöðvum. Stefnan er leiðbeinandi grunnur fyrir ákvarðanatökur á sviði menntunar og lýðheilsu í Hafnarfirði. Markhópurinn er öll börn og ungmenni í Hafnarfirði á aldrinum 0-18 ára, foreldrar þeirra og forsjáraðilar og starfsfólk sveitarfélagsins.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Heimsmarkmiðin eru framkvæmdaáætlun í þágu mannkynsins, jarðarinnar og hagsældar. Við val á aðgerðum til að koma áherslum stefnunnar í framkvæmd er horft til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna

Öllum þeim sem koma að málefnum barna ber að gera það sem í þeirra valdi stendur til að framfylgja sáttmálanum. Við val á aðgerðum til að koma áherslum stefnunnar í framkvæmd er horft til  sáttmálans.

Barnvænt sveitarfélag

Barnvænt sveitarfélag er verkefni sem styður við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í alla stjórnsýslu og starfsemi sveitarfélagsins. Innleiðing Barnasáttmálans Hjá Hafnarfjarðarbæ felur í sér samþykki sveitarfélagsins til að hafa sáttmálann að leiðarljósi í starfi sínu og að grunnþættirnir fimm gangi sem rauður þráður í gegnum stjórnsýslu og starfsemi þess. Barnvæn sveitarfélög stuðla að virkri þátttöku barna í málefnum sem snerta þau og eiga sveitarfélögin markvisst samráð við börn og ungmenni til að bæta þjónustu sína.

Heildarstefna Hafnarfjarðar til 2035

Heildarstefna Hafnarfjarðar er byggð upp í kringum níu meginmarkmið. Hvert og eitt þeirra á að stuðla að langtímaumbótum, jákvæðum breytingum til þess að framtíðarsýn stefnunnar verði að veruleika. Menntun fyrir alla er eitt markmiðanna, vellíðan íbúa, hreyfing og heilsa og markviss þátttaka dæmi um önnur.  Meginmarkmiðin eru tengd heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og Barnasáttmála sem ásamt meginmarkmiðum marka grunn fyrir val á áherslum í sértækum málum til 2-3ja ára í senn. Í stefnunni er meðal annars lögð áhersla á að viðmið Barnasáttmálans séu notuð í þjónustu við börn og ungmenni.