Músík og mótor

Þú þarft hvorki að vera mótorhaus né tónlistarmaður til mæta. Það eru allir velkomnir í Músik og Mótor!

Tónlistaraðstaðan

Í Músík og mótor er ókeypis aðstaða fyrir ungt tónlistarfólk í Hafnarfirði til að æfa, semja, pródúsera og vinna tónlist. Á staðnum eru tónlistarherbergi og æfingaaðstaða sem eru leigð út tónlistarfólk og hljómsveitir á aldrinum 13–20 ára. Aðstaðan er aðgengileg öllum og starfsmaður er á staðnum til að aðstoða ef þarf.

Hljómsveitir og aðrir sem eru að búa til tónlist komast í upptökuver hjá okkur til að taka upp sitt eigið efni undir leiðsögn. Sagan hefur sýnt að Músíkhúsið er frábær stökkpallur fyrir ungar og efnilegar hljómsveitir sem eru að stíga sín fyrstu eða önnur skref í hinum bráðskemmtilega heimi tónlistarinnar.

Hægt er að sækja um aðstöðu með því að tala við starfsfólk á staðnum, senda tölvupóst á mgm@hafnarfjordur.is eða hringja í síma 534 7260 á opnunartíma.

Mótorverkstæðið

Mótorverkstæði er einnig er í húsinu þar sem hægt er að sinna öllum verkefnum sem tengjast bílum, mótorhjólum og reiðhjólum. Öll helstu verkfæri eru í boði og starfsfólk sem þekki vel til viðgerða er á staðnum til að aðstoða.

Hugmyndafræðin

Lögð er áhersla á að allar meginforsendur með starfsemi Músík og mótor byggist á frumkvæði, hugmyndum og áhuga unga fólksins. Einnig er áhersla lögð á fjölbreytileika í starfi þar sem einstaklingar læra og upplifa lífið á mismunandi hátt. 

Öllum á að líða vel á starfsstöðvum. Það er forsenda þess að hægt sé að huga að öðrum markmiðum og að ungt fólk geti unnið að sínum áhugamálum. Ungt fólk á að fá tækifæri til að vinna við eigin hugmyndir og styðja starfsmenn við það starf. Starfsfólk á að vera góðar fyrirmyndir og ungmenni geta leitað til þeirra eftir upplýsingum og ráðgjöf.