Dýr

Gæludýr eru velkomin í bænum og geta bætt heilsu fólks. Íbúum er leyfilegt að halda hænur og meindýravarnir eru snar þáttur í starfsemi bæjarins.

Hundar

Hafnarfjörður er frá­bær stað­ur fyr­ir hunda, þar eru fjöldi göngu­leiða sem henta vel til úti­vist­ar. Í og við bæinn eru tvö hundasvæði.

  • Hundasvæðið við Hvaleyrarvatnsveg, strax eftir að beygt er af Krýsuvíkurveginum. Svæðið er opið og umlukið hrauni.
  • Lokað hundagerði hjá Öldugötu við kirkjugarðinn.

Helstu reglur um hundahald í Hafnarfirði:

  • Það er skylda að skrá hunda áður en þeir verða 4 mánaða eða mánuði eftir að eldri hundur kemur á heimili. Skráning er á vef Heil­brigðis­eft­ir­lits­ins.
  • Það á að skrá hund á heimili eigenda, sem þarf að vera 18 ára eða eldri.
  • Í fjöleignarhúsi með sameiginlegan inngang eða stigagang þarf samþykki 2/3 íbúa.
  • Það þarf að ormahreinsa hunda einu sinni á ári.

Kettir

Helstu reglur um kattahald í Hafnarfirði:

  • Það er skylda að örmerkja ketti í bænum áður en þeir verða 12 vikna.
  • Kettir eiga að bera hálsól með upplýsingum um heimilisfang eiganda og símanúmer.
  • Í fjöleignarhúsi með sameiginlegan inngang eða stigagang þarf samþykki 2/3 íbúa.
  • Gelda á alla fressi sem ganga úti fyrir 6 mánaða aldur.

Önnur gæludýr

Það er hægt að sækja um leyfi fyrir hænsnahaldi á Mínum síðum.

Önnur smá gæludýr, eins og kanínur, nagdýr og páfagauka, þarf ekki að fá leyfi fyrir.

Hestamennska

Hestamannafélagið Sörli sér um reiðvegasvæði sem er með því besta og fallegasta sem gerist á höfuðborgarsvæðinu. Þar má meðal annars finna:

  • Upplýsta reiðleið milli Hlíðarþúfna og Sörlaskeiðs.
  • Tvo reiðhringi um Gráhelluhraun.
  • Reiðleið um Smyrlabúðarhraun sem tengir Sörlasvæðið við reiðleiðir í Heiðmörk.
  • Reiðveg meðfram Flóttamannaleið sem tengir inn á reiðvegakerfi annarra hestamannafélaga.

Við reiðleiðirnar hefur Sörli sett upp áningarstaði. Landssamband Hestamanna hefur útbúið rafrænt kort með fjölmörgum reiðleiðum. Félagsaðstaða og reiðhöll Sörla er við Sörlaskeið 13a og ber hestamannafélagið ábyrgð á svæðinu.

Tilkynna meindýr eða dáin dýr

Hafnarfjarðarbær sinnir meindýravörnum hjá íbúum sem verða varir við rottur eða mink. Til að losna við þessi meindýr eða vilt tilkynna dáið eða slasað dýr geturðu sent skilaboð gegnum ábendingagáttina eða hringt í Þjónustumiðstöð í síma 585 5670. Það er reynt að bregðast við sem fyrst.

Hlutverk meindýravarna bæjarins er að halda meindýrum í lágmarki með eyðingu meindýra, upplýsingagjöf og fyrirbyggjandi starfsemi eins og að setja upp gildrur eða láta rottueitur í niðurföll.