Öll mannvirki sem eru reist til meðhöndlunar, flutnings eða hreinsunar á skólpi kallast fráveitur. Þar má nefna lagnir, leiðslukerfi, safnræsi og annan búnað til meðhöndlunar og hreinsunar skólps.

Fráveita Hafnarfjarðar

Hvert á að tilkynna stíflu í fráveitu?

Ef um stíflu er að ræða er best að senda ábendingu til okkar í gegnum ábendingagátt bæjarins. Neyðarnúmer utan opnunartíma er 664 5646.

Fráveita Hafnarfjarðar sér um allar stíflur í eldri hverfum bæjarins nema götustíflur í nýrri hverfum, þær falla undir gatnamál. Í þeim tilvikum er best að nota ábendingagáttina eða hafa samband við Þjónustuver í síma 585 5500.

Hvernig á að forðast stíflur og mengun?

Klósettið er ekki ruslafata. Mikil vinna og kostnaður fylgja því að hreinsa dælur og farga rusli. Með því að minnka magn óæskilegra hluta og efna sem við sendum í fráveituna getum við lækkað kostnað verulega. Þetta á einnig við um eldhúsvaska.

Það sem helst stíflar dælur er:

  • eldhúsbréf
  • trefjaklútar
  • smokkar
  • dömubindi og túrtappar
  • eyrnapinnar
  • steikingarfita og smjör
  • sósur

Góð hreinsun á fráveituvatni getur dregið verulega úr mengunaráhrifum þess. Best er að draga úr mengun með því að sturta ekki niður hættulegum efnum eða lyfjum heldur fara með þau til móttökuaðila slíks úrgangs.

Um Fráveitu Hafnarfjarðar

Fráveita Hafnarfjarðar var stofnuð í júlí 2003 sem sem B-hluta fyrirtæki með sjálfstæðan fjárhag. Umhverfis- og framkvæmdaráð fer með stjórn fráveitunnar í umboði bæjarstjórnar.

Vorið 2005 hófust umfangsmiklar framkvæmdir í fráveitumálum bæjarins og hafist handa við hreinsun strandlengjunnar. Hreinsistöðin í Hraunavík var tekin í notkun árið 2008 og tekur stöðin við öllu skólpi frá Hafnarfirði. Hreinsuðu skólpi er dælt um 2 km út á haf, á 23 m dýpi. Um er að ræða fráveitu með 1. stigs hreinsun á skólpi samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins og reglugerð um fráveitur og skólp nr. 798/1999. Að auki er allt skólp fitu- og sandsíað.

Við hönnun nýrrar dælu- og hreinsistöðvar var miðað við að á einfaldan hátt væri hægt að tvöfalda afköst stöðvarinnar og að fara út í 2. stigs hreinsun.

Fráveitur á kortavef Hafnarfjarðar

Á kortavef Hafnarfjarðar má finna marvíslegar gagnlegar upplýsingar og meðal annars yfirlit lagna og veitna í Hafnarfirði.