Þorp verður bær – saga, minningar og fortíðarþrá

Fréttir

Byggðasafn Hafnarfjarðar opnaði nýja þemasýningu í forsal Pakkhússins að Vesturgötu 6 í síðustu viku. Sýningin, sem ber heitið „Þorp verður bær, Hafnarfjörður 1960 – 1975″ fjallar um íbúafjölgun Hafnarfjarðar á árunum 1960 -1975, áhrifin og breytingarnar. Fjölmenni var við opnun sýningarinnar og flutti Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar ávarp í tilefni opnunarinnar.

Forvitnileg sýning sem gæti vakið upp fortíðarþrá

Byggðasafn Hafnarfjarðar opnaði nýja þemasýningu í forsal Pakkhússins að Vesturgötu 6 í síðustu viku. Sýningin, sem ber heitið „Þorp verður bær, Hafnarfjörður 1960 – 1975″ fjallar um íbúafjölgun Hafnarfjarðar á árunum 1960 -1975, áhrifin og breytingarnar. Andi sjöunda og áttunda áratugarins svífur yfir sýningarrýmið þar sem stofa og unglingaherbergi hafa verið endurgerð í líkingu við blokkaríbúðirnar sem voru að byggjast upp á þessum tíma og ýmislegt forvitnilegt sem vekur  upp fortíðarþrá gesta. Fjölmenni var við opnun sýningarinnar og flutti Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar ávarp í tilefni opnunarinnar.

Um sýninguna

Brýn þörf var á uppbyggingu nýrra hverfa, fjölgun skóla úr einum í þrjá, bætt íþróttaaðstaða og aukið æskulýðsstarf setti svip sinn á bæinn. Mikið var lagt upp úr atvinnuuppbyggingu og var töluverðum fjölda iðnaðarlóða úthlutað. Stærsta breytingin var þegar Íslenska álfélagið ,,ÍSAL“ var sett á fót innan bæjarmarkanna og í aðdraganda þess byggt álver sem var mikil lyftistöng fyrir atvinnulíf í Hafnarfirði. Með stækkandi bæ urðu vegalengdir lengri og myndaðist þá þörf fyrir innanbæjar strætisvagna og kjörbúðarbíll Kaupfélags Hafnarfjarðar þjónaði bæjarbúum. Samhliða þessum breytingum var þörf á bættri götulýsingu og bundnu slitlagi. Eitt af stóru málunum í huga bæjarbúa á þessum tíma var uppbygging hitaveitu í bænum sökum þess hvað olíuverð hafði hækkað. Framkvæmdir við hitaveitu með jarðvarma hófust 1974 og var fyrsta húsið, Miðvangur 114, tengt í ágúst ári síðar.

Komdu á safn í sumar!

Í Byggðasafni Hafnarfjarðar er að finna 7 sýningar. Pakkhúsið, Sívertsen húsið, Bookless Bungalow, Siggubær, Beggubúð, Gúttó og á Strandstígnum. Ókeypis aðgangur er á allar sýningar og opið frá kl. 11-17 alla daga vikunnar frá og með 1. júní til og með 31. ágúst.

Ábendingagátt