Þrír bæjarlistamenn sameina krafta sína í Gaflaraleikhúsinu

Fréttir

Gaflaraleikhúsið frumsýnir fjölskyldusöngleikinn Langelstur að eilífu helgina 26. – 27. febrúar kl. 13. Verkið fjallar á einlægan hátt um vináttuna, lífið og dauðann en sýningin er full af gleði, söng, hlýju og hjartnæmum boðskap. Uppselt er á nokkrar sýningar og miðsala í fullum gangi á sýningar næstu vikur.

Fjölskyldusöngleikurinn Langelstur að eilífu frumsýndur í Gaflaraleikhúsinu

Laugardaginn 26. febrúar kl. 13 og sunnudaginn 27. febrúar kl. 13

Gaflaraleikhúsið í Hafnarfirði frumsýnir fjölskyldusöngleikinn Langelstur að eilífu helgina 26. – 27. febrúar kl. 13. Leikgerð Bjarkar Jakobsdóttur sem jafnframt leikstýrir sýningunni er byggð á verðlaunabókum Bergrúnar Írisar Sævarsdóttur um vinina Eyju og Rögnvald sem verða bestu vinir þrátt fyrir 90 ára aldursmun. Verkið fjallar á einlægan hátt um vináttuna, lífið og dauðann en sýningin er full af gleði, söng, hlýju og hjartnæmum boðskap. Uppselt er á nokkrar sýningar og miðsala í fullum gangi á sýningar næstu vikur.

Copy-of-0K1A3585

Tólf hæfileikaríkir leikarar á aldrinum sjö til tíu ára

Með hlutverk Rögnvaldar fer Sigurður Sigurjónsson sem hefur farið með fjöldamörg veigamikil hlutverk í leikhúsum landsins og leikið í sjónvarpi og ótal kvikmyndum. Júlíana Sara Gunnarsdóttir og Ásgrímur Geir Logason bregða sér í ýmis hlutverk og leika meðal annars foreldra Eyju. Sjálf er Eyja leikin af tveimur sjö ára snillingum, þeim Nínu Sólrúnu Tamimi og Iðunni Eldeyju Stefánsdóttur. Að auki skipta tíu önnur hæfileikarík börn á aldrinum sjö til tíu ára með sér hlutverkum í sýningunni. Gaflaraleikhúsið hefur frá upphafi lagt mikla áherslu á kennslu í leiklist fyrir börn og ungmenni og var boðið upp á opnar áheyrnarprufur haustið 2021. Mörg hundruð börn mættu í prufur og greinilegt að leiklistaráhugi er mikill hjá yngri kynslóðinni.

0K1A3505

Einvalalið listrænna stjórnenda og glæný íslensk tónlist

Höfundur tónlistar og tónlistarstjórn er í höndum Mána Svavars og hefur hann samið sex ný lög með textum eftir þau Bergrúnu Írisi, Björk og Mána. Söngstjóri er Guðlaug Dröfn Ólafsdóttir og hönnuður búninga er Eva Björg Harðardóttir. Friðþjófur Þorsteinsson sér um ljósahönnun. Auk þess sér hann um hönnun leikmyndar ásamt Bergrúnu og Björk. Grafík hannaði Bergrún Íris Sævarsdóttir. Danshöfundur og sviðshreyfingar eru á vegum Chantelle Carey.

Þrír bæjarlistamenn sameina krafta sína í Gaflaraleikhúsinu

Hafnarfjörður er þekktur fyrir mikið og fjölbreytt menningarlíf. Þau Sigurður Sigurjónsson, Björk Jakobsdóttir og Bergrún Íris Sævarsdóttir eiga það sameiginlegt að hafa öll verið útnefnd bæjarlistamenn Hafnarfjarðar. Sigurður á hundrað ára afmælisdegi Hafnarfjarðar árið 2008, Bergrún árið 2020 eftir að hafa hlotið Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna og unglingabóka fyrir bók sína Langelstur að eilífu og Björk Jakobsdóttir 2019 fyrir að hafa lagt mikið af mörkum til að efla menningarlífið í Hafnarfirði og unnið með ungu fólki að verkefnum sem hafa vakið mikla athygli.

Gaflaraleikhúsið er hópur atvinnufólks sem hefur rekið leikhús við Víkingastræti í Hafnarfirði frá 2011 og skapað kraftmiklar, fyndnar, harmrænar, lifandi og sjónrænar leiksýningar og ný íslensk verk ávalt verið í forgrunni verkefnavals. Gaflaraleikhúsið nýtur stuðnings Sviðslistasjóðs og Hafnarfjarðarbæjar en með samningum við þessa aðila er ætlunin að byggja upp verkefni fyrir unga áhorfendur enn frekar innan leikhússins.

Ábendingagátt