Þróun velferðar í rétta átt

Fréttir

Fjölskyldu- og barnamálasvið sinnir öflugri velferðarþjónustu Hafnarfjarðar. Hefur þróun á verkferlum innan kerfisins síðustu ár stuðlað að bættu þverfaglegu samstarfi á milli deilda og stofnana í þágu íbúa sveitarfélagsins.

Fjölskyldu- og barnamálasvið sinnir öflugri velferðarþjónustu Hafnarfjarðar. Hefur þróun á verkferlum innan kerfisins síðustu ár stuðlað að bættu þverfaglegu samstarfi á milli deilda og stofnana í þágu íbúa sveitarfélagsins.

Viðtal við Rannveigu birtist í Fréttablaðinu fimmtudaginn 3. mars 2022

„Velferðarþjónusta Hafnarfjarðar býr yfir miklum mannauði sem er forsenda þess að hægt er að þróa og efla starfið í þágu íbúa sveitarfélagsins. Verkefnin eru afar fjölbreytt og snúa að þjónustu við íbúana á fjölmörgum sviðum. Þar má nefna þjónustu við fatlað fólk, eldri borgara, barnavernd, félagslega ráðgjöf, fjárhagsaðstoð og þjónustu við fólk af erlendum uppruna, svo eitthvað sé nefnt,“ segir Rannveig Einarsdóttir, sviðsstjóri fjölskyldu- og barnamálasviðs.

RannveigAegir

Að sögn Rannveigar hefur stafræn þróun gert velferðarþjónustu Hafnarfjarðar aðgengilegri og markvissari fyrir notendur. Á myndinni er Rannveig ásamt Ægi hjá stoðþjónustu flóttafólks. FRÉTTABLAÐIÐ / ERNIR

Órofin þjónusta

„Starfsmenn sviðsins eru 599 í 269 stöðugildum og er um að ræða samheldinn og jákvæðan hóp sem leggur sig allan fram í viðkvæmum störfum. Það er mikilvægt að þjónustan sé ávallt aðgengileg íbúum. Covid-19 hefur til dæmis verið mikil áskorun síðustu tvö árin en þjónustan verður að vera órofin og hefur það tekist með jákvæðni og útsjónarsemi starfsfólks. Hefur sviðið nú síðustu misserin lagt áherslu á stafræna þróun í því skyni að gera þjónustuna aðgengilegri og markvissari fyrir notendur. Við erum brautryðjendur í stafrænni afgreiðslu fjárhagsaðstoðar, sem er verkefni sem við erum að hleypa af stokkunum í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga.“

Nýtt og árangursríkt verklag 

Velferðarþjónusta sveitarfélaga hefur verið í mikilli þróun síðustu ár. „Nýsamþykkt lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna setja til dæmis nýjar kröfur á sveitarfélögin varðandi snemmtækan stuðning við börn og fjölskyldur. Samvinna þeirra sem koma að málum fjölskyldna er þar í forgrunni. Þar hefur Hafnarfjarðarbær verið í leiðandi hlutverki með þróun Brúarinnar sem er verklag sem sveitarfélagið hefur innleitt síðustu fimm árin. Verklag Brúarinnar fellur að ákvæðum nýju laganna um samþættingu enda var horft til Hafnarfjarðar við gerð þeirra. Við sjáum nú þegar árangur af starfi Brúarinnar meðal annars þegar horft er til barnaverndarmála en þeim hefur ekki fjölgað síðustu árin, ólíkt því sem gerist í öðrum sveitarfélögum. Fjölskyldu- og barnamálasvið hefur einnig þróað nýjar leiðir í þjónustu við flóttamenn og umsækjendur um alþjóðlega vernd þar sem heildarsýn og samræmd nálgun er höfð að leiðarljósi. Starfsmannahópur með fjölþættan bakgrunn sinnir þeirri þjónustu af mikilli fagmennsku,“ segir Rannveig.

Viðtal við Rannveigu birtist í Fréttablaðinu fimmtudaginn 3. mars 2022. 

Ábendingagátt