Þrýst á aðgerðir ráðuneytis

Fréttir

Fulltrúi fyrirtækja á Hellnahrauni og Selhrauni í Hafnarfirði fór á fund innanríkisráðherra á dögunum ásamt bæjarstjóra og formanni skipulags- og byggingarráðs vegna T-gatnamóta sem þykja stórhættuleg og barn síns tíma.

Fulltrúi fyrirtækja á Hellnahrauni og Selhrauni í Hafnarfirði fór á fund innanríkisráðherra á dögunum ásamt bæjarstjóra Hafnarfjarðarbæjar og formanni skipulags- og byggingarráðs. Á fundinum voru lögð fram tvö formleg bréf sem snúa að gerð mislægra gatnamóta á mótum Krýsuvíkurvegar og Reykjanesbrautar.  Gatnamóta sem þykja stórhættuleg og eru löngu orðin barn síns tíma. 

Hingað og ekki lengra segja fyrirtækin

Fundur með ráðherra var haldinn í framhaldi af því að fyrirtæki í Hellnahrauni og Selhrauni buðu bæjarstjóra Hafnarfjarðar á samstöðufund í byrjun janúar. Fyrirtækin þrýsta á framkvæmdir við mislæg gatnamót Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar og vilja með því bæta öryggi starfsmanna sinna og viðskiptavina. Það er krafa fyrirtækjanna á svæðinu að framkvæmdir við mislæg gatnamót verði settar í forgang áður en alvarleg slys verða. Vilja þau að framkvæmdalokum vegna mislægra gatnamóta verði flýtt til 2017 og að framkvæmdir hefjist sem fyrst á þessu ári. Í tillögu samgönguáætlunar fyrir 2018 er gert ráð fyrir fjármagni til verksins en þessu vilja fyrirtækin flýta. Sé ekki hægt að fara í framkvæmdir á mislægum gatnamótum strax fara stjórnendur fyrirtækjanna fram á það að ljósastýring verði sett upp á Reykjanesbrautinni.  Slík ljósastýring myndi hvorutveggja auka öryggi og ekki síður draga úr hraða á þessarri fjölförnu braut. Ljóst er þó að eina lausnin til framtíðar er mislæg gatnamót á svæðinu, sambærileg gatnamót og byggð hafa verið víða annars staðar þar sem umferðarþunginn er mun minni. Áætla má að á degi hverjum aki þúsundir starfsmanna, íbúa og viðskiptavina um núverandi T-gatnamót, þar af hundruðir stórra flutningabíla.

„Við viljum sjá framkvæmdir við mislæg gatnamót hefjast á þessu ári. Þau eru búin að vera á teikniborðinu lengi og höfum við öll sýnt mikla biðlund. Nú þurfum við að sjá aðgerðir þannig að unnt sé að tryggja öryggi allra þeirra sem um svæðið fara. Við skulum ekki gleyma því að Vellirnir í Hafnarfirði eru stækkandi hverfi, fyrirtækjunum þar fer fjölgandi auk þess sem á svæðinu er  stærsti grunnskóli landsins. Það sem áður var þörf er nú orðin nauðsyn“ segir Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar. 

Ábendingagátt