Til hamingju með 114 ára afmælið!

Fréttir

Hafnarfjörður fagnar í dag, miðvikudaginn 1. júní 2022, 114 ára afmæli en sveitarfélagið fékk kaupstaðaréttindi þann 1. júní 1908. Hafnfirðingar eru hvattir til að fagna afmælinu með komu á nýja þemasýningu í Pakkhúsi Hafnarfjarðar, þátttöku í fyrstu menningar og heilsugöngu sumarsins Hús í Hrauninu eða einfaldlega með því að njóta útiveru, hreyfingar, menningar, verslunar og veitinga í Hafnarfirði.  

Hafnarfjörður fagnar í dag, miðvikudaginn 1. júní 2022, 114 ára afmæli en sveitarfélagið fékk kaupstaðaréttindi þann 1. júní 1908. Ári seinna, þann 1. júní 1909, bjuggu 1469 manns í bænum og voru 109 börn skráð í barnaskóla bæjarins. Í dag búa 30.028 íbúar í Hafnarfirði og eru nemendur í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins rúmlega 6000.  Fánaborg hefur verið sett upp í Hellisgerði, skrúðgarði okkar Hafnfirðinga.  

Njótum Hafnarfjarðar á afmælisdaginn og alla aðra daga!

Afmælisdaginn í ár ber upp á fallegum miðvikudegi. Við hvetjum Hafnfirðinga og vini Hafnarfjarðar til að njóta alls eða einhvers af því Hafnarfjörður hefur upp á að bjóða í dag sem og flesta aðra daga; útivera, hreyfing, menning, verslun og veitingar. 

Sumaropnun og ný þemasýning í Byggðasafni Hafnarfjarðar 

Sumaropnun hefst á öllum söfnum Byggðasafns Hafnarfjarðar frá og með deginum í dag og kl. 17 í dag opnar formlega ný þemasýning í Pakkhúsi Byggðasafnsins. Sýningin ber heitið „Frú Þorbjörg Bergmann. Fyrsti hafnfirski safnarinn.“ Sýningin segir frá lífi Þorbjargar Sigurðardóttur Bergmann sem byrjaði ung að safna þjóðlegum munum með það í huga að varðveita menningararfinn. Léttar veitingar í boði og allir velkomnir! 

Hús í Hrauninu, Fyrsta menningar- og heilsuganga sumarsins 

Í sumar er boðið upp á bæjargöngur með leiðsögn alla miðvikudaga og er fyrsta gangan í kvöld kl. 20. Göngurnar eru samstarfsverkefni Bókasafns Hafnarfjarðar, Byggðasafns Hafnarfjarðar, Hafnarborgar og Heilsubæjarins Hafnarfjarðar. Í kvöld mun Jónatan Garðarsson leiða leit að fyrsta og þriðja húsi Hreins Friðfinnssonar, gönguna Hús í hrauninu. Gangan tekur tvær klukkustundir og verður gengið frá Gerðinu, austan megin við Álverið í Straumsvík. Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir.

Sumarlestur 2022 hefst hjá Bókasafni Hafnarfjarðar 

Sumarlestur Bókasafns Hafnarfjarðar hefst að venju þann 1. júní og stendur til 3. september, en þá verður fagnað rækilega með uppskeruhátíð! Sem fyrr verður hægt að skrá sig í sumarlesturinn bæði á bókasafninu sjálfu og rafrænt, lestrarhestur vikunnar verður dreginn út allt tímabilið og efni sent í alla grunnskóla til að hvetja til þátttöku. Hægt er að nálgast bæði lestrardagbækur sem og umsagnarmiða fyrir lestrarhest vikunnar á pólsku og íslensku. 

Nokkrar hugmyndir að skemmtun á 114 ára afmælisdaginn og aðra daga: 

Ábendingagátt