Dagur leikskólans er 6. febrúar! Til hamingju!

Fréttir

6. febrúar er dagur leikskólans. Hefð hefur skapast fyrir því að halda upp á daginn með fjölbreyttum hætti innan leikskóla Hafnarfjarðar líkt og í leikskólum um landið allt.

6. febrúar er dagur leikskólans en þann dag árið 1950
stofnuðu frumkvöðlar í leikskólastarfi fyrstu samtökin sín. Dagurinn er haldinn
hátíðlegur um land allt til að vekja sérstaka athygli á leikskólastiginu, mikilvægi
þess og gildi fyrir fjölskyldur í landinu og fyrir íslenskt atvinnulíf. Hefð
hefur skapast fyrir því að halda upp á daginn með fjölbreyttum hætti innan
leikskóla Hafnarfjarðar og þannig vakin sérstök athygli á uppbyggilegu og
metnaðarfullu starfi skólanna. Bæjarstjóri hefur haft það fyrir sið að
heimsækja einn leikskóla innan sveitarfélagsins í tilefni dagsins en ekki mun
verða að slíkri heimsókn þetta árið í ljósi takmarkana og lágmörkunar á flæði
fullorðinna einstaklinga um leikskólana. 

Tannvernd, stærðfræði, söngur og skemmtun

Hátíðarhöld hafa staðið yfir í leikskólunum alla vikuna og það með mjög fjölbreyttum hætti. Stöðvavinna með skemmtilegum og spennandi stöðvum sem virkja og gleðja nemendur og dagamunur í síðdegishressingu. Tannverndarvika hófst í upphafi vikunnar og hefur skólastarfið síðustu daga m.a. einkennst af áherslu á mikilvægi góðrar tannheilsu. Þannig hafa börnin unnið verkefni um tannheilsu, sungið lög, sagt sögur og rætt við starfsfólk um hvað sé gott fyrir tennurnar og hvað ekki. Sérstök stærðfræðivika hefur líka verið í gangi í kringum dag stærðfræðinnar 4. febrúar og krakkar og kennarar skemmt sér kostulega við stærðfræðiþrautir og verkefni. Leikskólastarfið er fjölbreytt lærdómssamfélag yngsta skólastigsins þar sem leikskólabörn fást við ólík verkefni sem eflir þau í leik og starfi.

Tannvernd3

Um Dag leikskólans

Félag leikskólakennara, menntamálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga og Heimili og skóli, standa fyrir „degi leikskólans“ þann 6. febrúar, en þann dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Markmiðið með deginum er að vekja athygli á þýðingu leikskóla fyrir börn og skapa jákvæða ímynd leikskólakennslu. Deginum er einnig ætlað að vekja athygli á stöðu leikskólans, gildi hans fyrir þjóðarauð og alla menningu. Þetta er í 14. skipti sem deginum er fagnað með formlegum hætti. 

Á vefjum leikskóla Hafnarfjarðar má finna ítarlegar upplýsingar um starfsemi skólanna 

Ábendingagátt