Tilbúnum íbúðum fjölgaði um 515% á fimm árum

Fréttir

Alls voru 524 nýjar íbúðir fullbúnar í Hafnarfirði í fyrra. Þær bættust í hóp 11 þúsund íbúða í bæjarfélaginu. Nýjum íbúðum í Hafnarfirði hefur fjölgað jafnt og þétt síðustu ár og fjölgaði um 515% í fyrra miðað við árið 2020.

Yfir 500 nýjar íbúðir í Hafnarfirði í fyrra

Alls voru 524 íbúðir fullbúnar í Hafnarfirði í fyrra, ríflega 515% fleiri en á árinu 2020. Samkvæmt tölum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar voru nýju fullbúnu íbúðirnar 524 í fyrra, 407 árið 2023 og 110 árið 2022.

Valdimar Víðisson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, segir mikla vinna hafa verið lagða í að hraða íbúðauppbyggingu, allt frá árinu 2018.  „Við sjáum afrakstur mikillar vinnu síðustu ára þessa dagana og ég mun áfram leggja áherslu á að hér séu byggðar íbúðir fyrir alla hópa samfélagsins líkt og verið hefur,“ segir hann.

  • 2024 = 524 íbúðir
  • 2023 = 407 íbúðir
  • 2022 = 110 íbúðir
  • 2021 = 137 íbúðir
  • 2020 = 85 íbúðir
  • Heimild: Tölur frá HMS

Húsnæðis og mannvirkjastofnun hélt í vikunni opinn fund um stöðuna á íbúðamarkaðinum. Þar kom fram að fullbúnum íbúðum fjölgaði hlutfallslega mest í Hafnarfjarðarkaupstað, eða um 4,8 prósent, þar sem 524 íbúðir urðu fullbúnar á síðasta ári.

Alls eru 4824 íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu, þar ef eru 1219 íbúðir í Hafnarfirði, samkvæmt mælaborði Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Stofnunin metur íbúðaþörfina rúmlega 13.600 næstu fimm árin, þar af tæplega 8390 á höfuðborgarsvæðinu.

„Hafnarfjörður hefur byggt mikið á síðustu tveimur til þremur árum í nýja hverfinu sínu,“ sagði Jón Örn Gunnarsson, sérfræðingur á húsnæðissviði HMS í fréttum RÚV á þriðjudagskvöld.

Helst hefur verið byggt á þróunarreitum hér í Hafnarfirði og á lóðum sem hafa hentað með tilliti til hlutdeildalána. Hér hafa risið hefðbundnar íbúðir sem henta markaðnum vel.

Vilja fjölga byggingarsvæðum

Nú er horft til að fjölga byggingasvæðum innan Hafnarfjarðar til að halda sama uppbyggingarhraða. Byggja á samtals um 1850 íbúðir í Hamranesi. Hluti þeirra er nú þegar kominn í notkun.

„Við höfum staðið okkur vel hér í Hafnarfirði líkt og tölurnar sýna,“ segir hann en ljóst sé að byggja þurfi meira um land allt. „Við þurfum að halda áfram að þétta byggð með skynsamlegum hætti á sama tíma og við byggjum á nýju landi. Þetta tvennt þarf að hanga saman og er eina leiðin til að leysa þá stöðu sem nú er uppi. Við skulum kalla þetta hafnfirsku leiðina “ segir Valdimar léttur.

Hamraneshverfi um umliðna helgi. Myndir/Guðmundur Fylkisson

 

Ábendingagátt