Tilkynning frá Hafnarfjarðarbæ

Fréttir

Vegna úrskurðar Persónuverndar í máli 2015/241

Tilkynning frá Hafnarfjarðarbæ vegna úrskurðar Persónuverndar í máli 2015/241 (miðlun persónuupplýsinga frá Vodafone til Hafnarfjarðarbæjar og vinnsla á þeim)

Niðurstaða Persónuverndar var sú að Hafnarfjarðarbær hefði haft lögmæta hagsmuni af því að kalla eftir upplýsingum frá Vodafone í umrætt sinn vegna rannsóknar meints öryggisbrots í Ráðhúsi Hafnarfjarðarbæjar, og að vinnsla þeirra hefði verið í samræmi við persónuverndarlög nr. 77/2000.Telur Hafnarfjarðarbær mikilvægt að Persónuvernd hafi staðfest að heimilt hafi verið að afla upplýsinga sem varðað gátu öryggismál í Ráðhúsinu. Á hinn bóginn taldi Persónuvernd að ekki hafi verið fullnægjandi, vegna svonefndrar fræðsluskyldu, að upplýsa eingöngu um rannsóknina á fundi bæjarráðs. Upplýsa hafi átt sérstaklega þá einstaklinga sem fram komu á lista Vodafone, en honum hafði Hafnarfjarðarbær hins vegar eytt eftir að í ljós kom að þær upplýsingar sem leitað var eftir voru ekki á listanum.  Rétt er að taka fram að kvörtun tveggja kvartenda af þremur var vísað frá Persónuvernd enda varðaði málið ekki þá, en sá þriðji reyndist ranglega vera á umræddum lista af tilteknum ástæðum.  Hafnarfjarðarbær mun í samræmi við tilmæli Persónuverndar gera ráðstafanir til að fræða hlutaðeigandi um þá vinnslu sem fram fór af hálfu bæjarins.

 Niðurstöðu Persónuverndar má finna á heimasíðu stofnunarinnar á slóðinni 
http://www.personuvernd.is/efst-a-baugi/urskurdir-og-alit/2015/nr/2042 

 

Ábendingagátt