Tímamótaskref í eflingu og þróun leikskólastarfsins í Hafnarfirði  

Fréttir

Hafnarfjarðarbær er þessa dagana að stíga tímamótaskref í eflingu og þróun á leikskólastarfi til framtíðar með það að markmiði að fjölga fagfólki í leikskólum bæjarins og auka sveigjanleika. Nýjustu aðgerðir sveitarfélagsins fela meðal annars í sér aukið samræmi á milli fyrstu skólastiganna og mótun á leikskólaumhverfi sem svarar betur þörfum skólasamfélagsins og þeirri þróun sem átt hefur sér stað í íslensku samfélagi og starfsumhverfi síðustu ár.

Full vinnutímastytting og áframhaldandi uppbygging á aðlaðandi leikskólaumhverfi

Hafnarfjarðarbær er þessa dagana að stíga tímamótaskref í eflingu og þróun á leikskólastarfi til framtíðar með það að markmiði að fjölga fagfólki í leikskólum bæjarins og auka sveigjanleika. Nýjustu aðgerðir sveitarfélagsins fela meðal annars í sér aukið samræmi á milli fyrstu skólastiganna og mótun á leikskólaumhverfi sem svarar betur þörfum skólasamfélagsins og þeirri þróun sem átt hefur sér stað í íslensku samfélagi og starfsumhverfi síðustu ár. Þegar samþykkt var árið 2019 að eitt leyfisbréf gilti til kennslu á bæði leik- og grunnskólastigi fækkaði fagfólki í leikskólum á landsvísu og vill Hafnarfjarðarbær snúa þessari þróun við.

„Við erum að stíga mikilvæg tímamótaskref í leikskólamálum hér í Hafnarfirði sem eru til þess fallin að umbylta starfsumhverfi leikskólastarfsfólks og snúa við þróun sem er engum til framdráttar. Við viljum fleira fagfólk í leikskólana og fagfólkið okkar kallaði eftir breytingum. Þessi skref munu efla og styrkja leikskólaumhverfið og auka mikilvægan sveigjanleika til framtíðar“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar.

Starfsár kennara í leikskólum sambærilegt starfsári kennara í grunnskólum 

Full vinnutímastytting hefur verið innleidd í öllum leikskólum Hafnarfjarðarbæjar og unnið eftir útfærslum sem henta starfseminni á hverjum stað sem skerða hvorki þjónustu né gæði leikskólastarfsins. Nýtt vinnutímafyrirkomulag nær til alls starfsfólks leikskólanna og er útfærslan ólík á milli starfsfólks og starfsstöðva. Stærsta breytingin er að frá og með 15. desember 2022 er starfsár starfsfólks í Félagi leikskólakennara og annars háskólamenntaðs starfsfólks innan leikskóla Hafnarfjarðarbæjar sambærilegt starfsári grunnskólakennara. Þetta þýðir að starfsfólkið mun taka út fulla vinnutímastyttingu, samningum og samþykktum samkvæmt, í kringum hátíðir, vetrarfrí og með lengra fríi á sumrin. Samhliða er unnið að endurskipulagningu á starfsári leikskólanna með það fyrir augum að færa skipulagið nær skipulagi grunnskólastarfsins með virku og faglegu námi stóran hluta ársins og faglegu tómstunda- og frístundastarfi með öðruvísi áherslum þar fyrir utan.

Áhersla lögð á að efla og styrkja ófaglært starfsfólk innan leikskólanna

Áfram verður áhersla lögð á að efla og styrkja ófaglært starfsfólk innan leikskólanna meðal annars með stuðningi til réttindanáms í faginu og til skoðunar eru aðgerðir sem munu hafa jákvæð og hvetjandi áhrif á þann mikilvæga hóp í heild. Miklar vonir eru bundnar við að nýtt fyrirkomulag efli og styrki fagstarf innan leikskólanna til framtíðar og fjölgun verði í hópi fagmenntaðra á mikilvægum mótunarárum í lífi ungra barna. “Það eru spennandi tímar framundan í leikskólum Hafnarfjarðar. Nýverið samþykktum við jafnframt heimgreiðslur til foreldra, stofnstyrki og hækkun á niðurgreiðslu til dagforeldra sem lið í þeirri vegferð að auka valmöguleika fyrir foreldra ungra barna,” segir Rósa.

Ábendingagátt