Tímasett heildarstefna vegabóta

Fréttir

Hafnarfjarðarbær áréttar að mikil þörf er á að marka heildarstefnu varðandi vegabætur á stofnvegakerfi sem liggur í gegnum Hafnarfjörð. Síðustu misseri hefur umferð á þessari leið aukist mjög mikið og sýna tölur glöggt að tvö slysahæstu hringtorgin á höfuðborgarsvæðinu eru hringtorg við Lækjargötu og Flatahraun og eru þau einnig efst á blaði þegar kemur að slysum á ferðamönnum. Umferðarmál í Hafnarfirði voru að nýju tekin fyrir á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar í dag.

Hafnarfjarðarbær áréttar að mikil þörf er á
að marka heildarstefnu varðandi vegabætur á stofnvegakerfi sem liggur í gegnum
Hafnarfjörð. Síðustu misseri hefur umferð á þessari leið aukist mjög mikið og
sýna tölur glöggt að tvö slysahæstu hringtorgin á höfuðborgarsvæðinu eru
hringtorg við Lækjargötu og Flatahraun og eru þau einnig efst á blaði þegar
kemur að slysum á ferðamönnum. 

Fyrirhugaðar framkvæmdir við ný mislæg gatnamót
Krýsuvíkurvegar og Reykjanesbrautar eru sannarlega skref í rétta átt en
nauðsynlegt er að framkvæmdin haldist í hendur við heildarstefnu á vegabótum í
Hafnarfirði og varanlegar lausnir sem munu auka flutningsgetu, draga úr umferð
og auka öryggi allra í umferðinni. Umferðarmál í Hafnarfirði voru að
nýju tekin fyrir á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar í dag þar sem meðfylgjandi
bókun var lögð fram:

„Bæjarstjórn fagnar útboði og fyrirhuguðum framkvæmdum vegna
nýrra mislægra gatnamóta Krýsuvíkurvegar og Reykjanesbrautar. Um er að ræða
fyrsta skrefið af fleiri brýnum verkefnum í uppbyggingu og endurnýjun
stofnvegakerfisins í gegnum Hafnarfjörð. Bæjarstjórn skorar á sama tíma á Alþingi
og ráðuneyti að marka tímasetta heildarstefnu á vegabótum á Reykjanesbraut
innan Hafnarfjarðar og tryggja að fjármagni verði veitt í áframhaldandi
framkvæmdir á svæði sem setið hefur eftir. Tryggt verði fjármagn á fjárlögum
2018 og næstu ára þar á eftir gerist þess þörf. Á þessum kafla, sem um ræðir í
Hafnarfirði, eru átta gatnamót; tvö mislæg, þrjú T-gatnamót og tvö hringtorg
sem eru orðin mikil slysagildra. Þessi tvö hringtorg eru, samkvæmt samantekt
Umferðardeildar Vegagerðarinnar frá því í júní 2016, slysahæstu hringtorgin á
höfuðborgarsvæðinu sem segir mjög mikið til um mikilvægi framkvæmdarinnar. Það
er lífsnauðsynlegt að tryggja umferðaröryggi á þessu svæði og stuðla að því að
m.a. íbúar á svæðinu komist öruggir til og frá heimilum sínum. Öngþveiti á
annatímum hefur orðið til þess að umferðin hefur í auknum mæli færst inn í
íbúðahverfin sjálf sem leitt hefur af sér aukinn hraða og aukna slysahættu.
Mælingar sýna að umferð um Reykjanesbraut – Hafnarfjarðarveg ( Kaplakriki) að
brú yfir Fjarðarbraut ( Strandgötu) hefur aukist úr 15.373 bílum á dag árið
2000 í 28.851 árið 2015 og fer fjölgandi. Á þessari leið eru gatnamót á milli
hverfa í Hafnarfirði en sívaxandi umferðarþungi, sem ekki síst má rekja til
aukins ferðamannastraums til landsins, er að leggjast mjög þungt á samgöngur
innan bæjarins.  Hafnarfjörður býr við
mun verra ástand hvað þetta varðar en nokkur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu
þar sem allir ferðamenn sem koma til landsins fara umræddan veg á leið sinni
til langflestra annarra staða á landinu. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar óskar eftir
viðræðum hið fyrsta milli fulltrúa bæjarins og ríkisvaldsins vegna þessara mála“.

Ábendingagátt