Tíminn er dýrmætasta gjöfin

Fréttir

Jólahugvekja Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra Hafnarfjarðar.

Jólahugvekja Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra Hafnarfjarðar

Tíminn er dýrmætasta gjöfin

Jólahátíðin gengur í garð innan tíðar þegar aðfangadagur rennur upp á fjórða sunnudegi í aðventu. Við kveikjum á fjórða kertinu, yljum okkur við falleg ljósin og berum þá von í brjósti að eiga framundan friðsæla og fallega jólastund í faðmi ástvina. Það eru jólin. Jólin eru tilfinning, jólin eru kærleikur og hlýja, jólin eru friður í hjörtum og jólin eru minningar um liðnar stundir. Og á jólum fyllumst við þakklæti. Þökkum fyrir lífið, tímann sem okkur er gefinn, alla sem umvefja okkur ást og umhyggju, alla sem við höfum átt að og eru horfnir á braut. Þökkum fyrir minningarnar sem ylja og gleðja.

Náungakærleikur í sinni fallegustu mynd

Samfélagið í Hafnarfirði brást fallega við þegar hörmulegt slys varð í bænum fyrir nokkrum vikum. Hlýhugurinn og samkenndin var einstök í garð fjölskyldunnar sem missti ungan son sinn. Það er sterk og áhrifarík minningin um móður drengsins sem stóð upp í minningarathöfn á Ásvöllum nokkrum dögum eftir slysið, þar sem hún þakkaði fyrir líf sonar síns, þakkaði fyrir að hafa fengið að vera móðir hans þótt tími hans á jörðunni hafi aðeins verið átta ár. Og þakkaði fyrir náungakærleikann sem þau upplifðu frá okkar góða samfélagi. Slík samkennd veitti henni og fjölskyldunni ómetanlegan styrk og stuðning í þeirra ólýsanlega djúpu sorg. Það er fallegt og gott samfélag sem bregst þannig við í erfiðustu aðstæðum.

Gefum tíma

Það er einmitt þetta með tímann. Hann er allt sem við eigum og skiptir máli. Hvaða máli skiptir allt heimsins prjál ef við höfum svo ekki tíma; tíma til að rækta og sinna fólkinu okkar; tíma til að vera? Við komum öll allslaus í þetta líf og förum þannig þegar jarðvistinni lýkur. Hvernig við verjum tímanum, hvað við gefum af okkur, hvernig við komum fram við sjálfa okkur og aðra og hvað við höfum lagt af mörkum. Tíminn, er sú allra besta gjöf sem við gefum, og fyrirfram vitum við ekki hvenær hann verður genginn til þurrðar.

Jólaljósin mild og fögur

Jólabærinn Hafnarfjörður hefur skinið skært sem aldrei fyrr í aðdraganda jólahátíðarinnar. Það gleður hugi okkar og hjörtu að njóta fallegu ljósanna og skreytinganna útivið, eins og í lystigarðinum okkar Hellisgerði sem fagnaði aldarafmæli á árinu. Mild ljósin, fegurðin og birtan sem af þeim stafar gefur fyrirheit um bjarta daga; minnir okkur á að sólin hækki á lofti og væntingar um að nýja árið sé fullt af spennandi tækifærum.

Ég óska ykkur öllum gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á nýju ári.

Rósa Guðbjartsdóttir
bæjarstjóri Hafnarfjarðar

Ábendingagátt