Tóbakskönnun – niðurstöður

Fréttir

Könnun á því hvort unglingar geta keypt sígarettur eða neftóbak á sölustöðum tóbaks í Hafnarfirði var framkvæmd í janúar. Margir sölustaðir seldu unglingunum tóbak og kalla niðurstöður á aukið aðhald og eftirlit.

Í lok janúar stóð íþrótta- og tómstundafulltrúi Hafnarfjarðar fyrir könnun á því hvort unglingar gætu keypt sígarettur eða neftóbak á sölustöðum tóbaks í Hafnarfirði.  Margir sölustaðir seldu unglingunum tóbak og kalla niðurstöður á aukið aðhald og eftirlit.

Tveir unglingar úr 10. bekk fóru á sölustaði undir eftirliti starfsmanna Hafnarfjarðarbæjar og reyndu að kaupa neftóbak og svo nokkrum dögum seinna var reynt að kaupa sígarettur. 9 af 14  sölustöðum seldu unglingunum sígarettur en 6 staðir seldu þeim neftóbak af þeim 14 sölustöðum sem aðgengilegir eru ungu fólki.

Ekki var farið inn á staði með vínveitingaleyfi þar sem tóbak er selt. Frekari upplýsingar úr könnuninni eru sendar Heilbrigðiseftirliti Kópavogs- og Hafnarfjarðarsvæðisins þar sem unnið verður úr þeim eins og lög gera ráð fyrir. Sölustöðunum sem seldu börnunum tóbak verður send ábending þar sem þeim er leiðbeint varðandi reglur er varða sölu á tóbaki. Búast má við því að þeir staðir sem seldu börnum tóbak fái áminningu frá heilbrigðiseftirliti eins og kveður á um í lögum um tóbaksvarnir.

Markmiðið er að enginn hafnfirskur sölustaður selji ungmennum tóbak

 
Nauðsynlegt er að sölustaðir setji sér skýrari reglur sem tryggja að aldurstakmörk séu virt. Hafnarfjarðarbær hefur síðustu ár athugað aðgengi barna að tóbaki einu sinni til þrisvar á ári og veitt sölustöðum stöðugt aðhald. Meirihluti sölustaða í Hafnarfirði hefur gert sérstakt samkomulag við íþrótta- og tómstundafulltrúa sem miðar að því að leita allra leiða til að koma í veg fyrir sölu tóbaks til barna. Þetta er versta niðurstaða í áraraðir. Síðustu ár hefur könnunum fækkað og ljóst er að það ber árangur að veita sölustöðum aðhald.  Markmiðið er að enginn sölustaður selji börnum og unglingum tóbak. Því mun íþrótta- og tómstundafulltrúi í umboði Íþrótta- og tómstundanefndar Hafnarfjarðar halda áfram með þessar kannanir. Niðurstaðan er sýnd á mynd í samanburði við síðustu ár. 

Í 8. gr laga um tóbaksvarnir eru skýr fyrirmæli um sölu tóbaks. Tóbak má hvorki selja né afhenda einstaklingum yngri en 18 ára. Bann þetta skal auglýst með áberandi hætti þar sem tóbak er selt. Leiki vafi á um aldur kaupandans getur sala því aðeins farið fram að hann sýni með skilríkjum fram á að hann sé orðinn 18 ára.

Nánari upplýsingar um könnun veitir: Geir Bjarnason – geir@hafnarfjordur.is 

Ábendingagátt