Tólf fá viðurkenningu fyrir 25 ára starf

Fréttir

Tólf starfsmenn hlutu 25 ára starfsaldursviðurkenningu í gærdag. Samanlagður starfsaldur þessa flotta hóps er 300 ár. Aðeins konur prýddu fagran hópinn í ár.

300 ár af samanlögðum starfsaldri!

12 starfsmenn fengu í gær viðurkenningu fyrir aldarfjórðungs störf sín fyrir Hafnarfjarðarbæ. Valdimar Víðisson bæjarstjóri bauð öll hjartanlega velkomin í Hafnarborg og til kaffisamsætis. Þar þakkaði hann þeim fyrir gott starf.

Þetta er tíunda árið í röð sem Hafnarfjarðarbær veitir starfsfólki viðurkenningu og hafa þær verið veittar öllum þeim sem starfað hafa í 25 ár og 15 ár hjá bænum og starfsmennirnir fengið þakklætisvott fyrir framlag sitt og störf í þágu bæjarins. Viðurkenningar fyrir 15 ára starfsaldur eru veittar á hverjum starfsstað en þeim sem fagna 25 ára starfsaldri hjá sveitarfélaginu er boðið til hátíðar í Hafnarborg af því tilefni.

Valdimar þakkaði hverri og einni með gullfallegum orðum og Lind Einarsdóttir mannauðsstjóri afhenti blóm. Hér má sjá samantekt úr umsögnum um þessar tólf, en eina vanti á myndina.

Hér má sjá 11 af 12 starfsmönnunum sem fengu viðurkenningu í gær auk stjórnenda á starfstöðum þeirra og bæjarstjórann.

Hér má sjá 11 af 12 starfsmönnunum sem fengu viðurkenningu í gær auk stjórnendum á starfstöðum þeirra og bæjarstjórann.

  • „Hún vinnur af metnaði, alúð og einlægum áhuga og hefur skapað námsumhverfi þar sem nemendur fá að dafna.“
  • „Með einstakri hlýju, fagmennsku og skýrri sýn hefur hún skapað umhverfi þar sem börn fá að blómstra og vaxa.“
  • „Þekking hennar og reynsla nýtist sérstaklega vel í verkefnum tengdum upplandinu, Krýsuvík og útivistar- og opnusvæðum bæjarins. Hún er jákvæð og góð í samstarfi og hefur skapað ánægjulegt vinnuumhverfi í gegnum árin. “
  • „Hún lætur hlutina gerast og gerir það með gleði, þrautseigju og fagmennsku.“
  • „Hún setur velferð nemenda ávallt í forgang og er jafnframt góður liðsmaður með gott hjarta og húmor.“
  • „…er sterkur leiðtogi sem byggir upp samheldinn hóp þar sem styrkleikar allra fá að njóta sín og starfsumhverfið verður öflugt og heilsteypt.“
  • „Hún á einstök tengsl við nemendur, mætir þeim af hlýju og jákvæðni og skapar traust, metnað og gleði í kennslustofunni. Nemendur hennar sýna mikinn lestraráhuga og hefur hún lagt metnað sinn í að allri nái árangri í lestri í nánu samstarfi við heimilin.“
  • „Hún er góður vinur og sýnir nemendum sínum einlægan áhuga og umhyggju, sem gerir hana að kennara sem nemendur bæði treysta og líður vel með.“
  • „…er afar vinsæl bæði meðal nemenda og samstarfsfólks og ferill hennar er einstakur.“
  • „…hefur ávallt hag barnanna í fyrirrúmi og sýnir þeim umhyggju, þolinmæði og einlægni.
  • „…setur ávallt þarfir barnanna í fyrsta sæti, heldur vel utan um starfsfólk sitt og á gott samstarf við foreldra.“  
  • „…miðlar mikilvægi listgreina af áhuga og nær að kveikja áhuga nemenda á skapandi vinnu. Hún er kennari sem hægt er að treysta á og sem skólinn er afar heppinn að hafa.“

Viðurkenningarhátíðin er ómissandi hluti uppskeru árangurs og ávaxtar í starfsmannahópi bæjarins.

Já, við búum að starfsfólki með ríka reynslu hér í bænum okkar.

Ábendingagátt