„Þetta er svo gaman“ – Tónlistarnámskeið fyrir 5 til 18 mánaða börn

Barnvænt sveitarfélag Fréttir

„Þótt námskeiðið sé fyrir ung börn er þetta svo mikið gert fyrir foreldra,“ segir María Gunnarsdóttir, sem heldur tónlistarnámskeið fyrir ung börn í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar. Það hefst 25. janúar og stendur til 8. mars.

Börnin njóta í tónlistarskóla

„Þetta er alveg dásamlegt,“ segir María Gunnarsdóttir, tónmenntakennari í Setbergsskóla í Hafnarfirði, sem heldur tónlistarnámskeið fyrir ung börn sem hefst 25. janúar og stendur til 8. mars. María hefur áratugareynslu í að kenna börnum tónlist.

„Þótt námskeiðið sé fyrir ung börn er þetta svo mikið gert fyrir foreldra,“ segir María. „Við erum með hljóðfæri, litlar hristur, trommur, sápukúlur. Ég syng með börnunum og fer með þulur sem mér finnst skemmtilegar. Tímarnir byggjast alltaf eins upp, því endurtekningin er svo mikilvæg börnum,“ segir María.

„Litli bangsi Bjössi í lítilli öskju vaknar og býður góðan dag. Þegar tíminn er búinn sest ég við flygilinn. Bjössi kemur þar og sofnar þegar ég syng Dvel ég í draumahöll. Þá vita börnin að tíminn er búinn.“

Eldri systkinin velkomin með

Námskeiðið er fyrir börn frá 5-18 mánaða og eru eldri systkin velkomin fyrir eitt gjald. Kennt er í 40 mínútur hvert skipti.

„Við förum í hreyfileiki, syngjum lög um líkamann og önnur skemmtileg barnalög og þulur. Notum glimmerflöskur, slæður, allskonar skemmtileg ásláttarhljóðfæri sem örva tónlistar þroska og síðast en ekki síst skemmtilega tónlist sem bæði foreldrar og barnið munu líka,“ segir María og að foreldrarnir fái svo sönghefti í lok námskeiðsins svo þeir geti sungið lögin fyrir börnin heima.

Námskeiðið nú er það fyrsta á árinu og það eru laus pláss. „Já, það er laust og því má stökkva til og taka þátt.“

Skráning á mínum síðum

Kennslan fer fram í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar, Strandgötu 51 í stofu 6. Námsskeiðsgjald er 16.000 krónur fyrir sex skipti.

Já, syngjum og njótum með litlu hnoðrunum okkar.

Ábendingagátt