Traustur rekstur og stöðugleiki

Fréttir

Tillaga að fjárhagsáætlun 2026 var lögð fyrir bæjarstjórn Hafnarfjarðar til fyrri umræðu í dag, miðvikudaginn 5. nóvember 2025.

Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar 2026

Tillaga að fjárhagsáætlun 2026 var lögð fyrir bæjarstjórn Hafnarfjarðar til fyrri umræðu í dag, miðvikudaginn 5. nóvember 2025. Áætlaður rekstrarafgangur A- og B-hluta sveitarfélagsins nemur 2.144 milljónum króna á árinu 2026. Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði 7,3% af heildartekjum eða 4.165 milljónir króna.

Áætlun gerir ráð fyrir að rekstur A-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði verði jákvæður um 4.837 milljónir króna. Áætlaður rekstrarafgangur A-hluta er 1.051 milljón króna.

Áætlað er að heildartekjur fyrir A- og B-hluta verði um 57,4 milljarðar króna árið 2026 og að rekstrargjöld fyrir fjármagnsliði verði um 50,4 milljarður króna. Áætlaðar heildareignir í lok næsta árs nema um 113 milljörðum króna og eiginfjárhlutfall 34,3%. Skuldaviðmið skv. reglugerð 520/2012 er áætlað 90,6% í lok næsta árs. Útsvarsprósenta á árinu 2026 verður áfram 14,93% en álagningarprósenta fasteignaskatts á íbúðar- og atvinnuhúsnæði lækkar á milli ára.

Helstu tölur úr fjárhagsáætlun 2026

  • Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta jákvæð um 2.144 milljónir króna
  • Rekstrarniðurstaða A-hluta jákvæð um 1.051 milljón króna
  • Skuldaviðmið A- og B-hluta áætlað um 90,6% í árslok 2026
  • Áætlað veltufé frá rekstri A- og B-hluta 4.165 milljónir króna eða 7,3% af heildartekjum
  • Útsvarsprósenta áfram 14,93%
  • Álagningarprósenta fasteignaskatta verður lækkuð til þess að mæta hærra fasteignamati, þannig að breyting álagningar á íbúðar- og atvinnuhúsnæði verði að meðaltali undir verðbólgu
  • Áætlaðar fjárfestingar í A- og B-hluta nema um 10,5 milljörðum króna

„Ábyrg fjármálastjórn skilar sér í traustum rekstri Hafnarjarðarbæjar enn eitt árið, þrátt fyrir ýmsar ytri áskoranir,“ segir Valdimar Víðisson bæjarstjóri. „Á komandi ári er gert ráð fyrir hóflegum afgangi á rekstri A-hluta bæjarsjóðs og á samstæðunni í heild. Áhersla er lögð á framúrskarandi þjónustu við íbúa, fallegt umhverfi og blómlegt mannlíf. Viðamiklar fjárfestingar á sviði skólamála, íþróttamannvirkja, gatnagerðar og búsetukjarna eru á lokastigi eða komnar í gagnið. Markviss uppbygging hefur átt sé stað í íbúða- og atvinnuhúsnæði og má vænta þess að enn meiri framkvæmdakraftur bíði þess að leystast úr læðingi með hjöðnun verðbólgu og lækkun vaxta. Þá mun Hafnarfjörður standa vel að vígi með frábær tækifæri fyrir atvinnulíf, fjölbreytta möguleika í íbúðabyggð, hóflegar álögur, hátt þjónustustig og líflegt og aðlaðandi samfélag.“      

Helstu framkvæmdir árið 2026

Fjárheimild til framkvæmda árið 2026 er um 10,5 milljarðar króna. Í fjárhagsáætlun er lögð áhersla á forgangsröðun í grunnþjónustu, svo sem skólamálum, umhverfismálum, samgöngum, íþróttaaðstöðu og húsnæðis- og veitumálum. Aukið fjármagn verður sett í skipulagsmál, sem er forsenda fyrir áframhaldandi framkvæmdir.

Lokið verður við gatnagerði í Áslandi 4 og hafin gatnagerð í nýju iðnaðarhverfi í Hellnahrauni 4 og íbúabyggð á Þorlákstúni. Unnið verður áfram við að reisa skóla í Hamranesi og samhliða verður unnið að lagfæringum og uppbyggingu skóla og skólalóða víðs vegar um bæjarfélagið. Haldið verður áfram frágangi á nýbyggingarsvæðum víðs vegar um bæinn, svo sem við malbikun, gerð stétta, stíga og leiksvæða sem og almenna grænkun svæða. Jafnframt verða endurgerðar gönguleiðir í eldri hverfum með viðhaldi og frágangi gangstétta. Áfram verður unnið að uppbyggingu vistvænna samgangna, svo sem stíga og hjólreiðastíga, auk þess sem áhersla verður lögð á umferðaröryggismál. Framkvæmdir standa yfir við nýtt bókasafn í miðbæ og búsetukjarna og unnið verður í lokafrágangi knatthúss Hauka og reiðhallar Sörla. Endurgerð Suðurbæjarlaugar heldur áfram með bættri búningsaðstöðu. Áfram verður haldið með að tryggja afkastagetu fráveitu- og vatnsveitu og afhendingaröryggi vatnsveitu.

 

Afgreiðsla fjárhagsáætlunar

Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar er lögð fram til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar 5. nóvember 2025. Fjárhagsáætlun nær til næsta árs auk þriggja ára áætlunar fyrir árin 2027-2029. Gert er ráð fyrir að seinni umræða og afgreiðsla fjárhagsáætlunar í bæjarstjórn verði miðvikudaginn 3. desember 2025.

 

 

Ábendingagátt