Trjágróður, garðaúrgangur og skjólveggir við lóðamörk

Fréttir

Á þessum tíma árs er mikilvægt að minna íbúa á nokkur atriði sem vert er að hafa í huga varðandi trjágróður við lóðamörk, garðaúrgang og byggingu skjólveggja.

Hugum að gróðri að lóðamörkum – skyldur lóðareigenda

Trjágróður sem vex út fyrir lóðarmörk getur verið verið hamlandi og jafnvel skaðlegur fyrir gangandi, hjólandi eða akandi vegfarendur og getur skyggt á umferðarmerki, götuheiti og jafnvel lýsingu. Í byggingarreglugerð grein 7.2.2. segir um tré og runna: „lóðarhafa er skylt að halda vexti trjáa og runna á lóðinni innan lóðamarka. Sinni hann því ekki og þar sem vöxtur trjáa eða runna fer út fyrir lóðamörk við götur, gangstíga eða opin svæði er veghaldara eða umráðamanni svæðis heimilt að fjarlægja þann hluta er truflun eða óprýði veldur, á kostnað lóðarhafa að undangenginni aðvörun.“

Það sem þarf að hafa í huga er að:

  • Umferðarmerki séu sýnileg
  • Gróður byrgi ekki götulýsingu
  • Gangandi og hjólandi eigi greiða leið um gangstíga
  • Þar sem vélsópar og snjóruðningstæki fara um má lágmarkshæð gróðurs yfir stígum ekki vera lægri en 2,8 metrar
  • Yfir akbrautum má gróður ekki slúta niður fyrir 4,2 metra og gildir þessi hæðarregla einnig þar sem sorphirðubílar, slökkvilið og sjúkrabílar þurfa að komast eftir stétt eða stíg

Garðaúrgangur – gjaldfrjáls móttaka á Sorpu

Sorpa tekur endurgjaldslaust á móti garðaúrgangi frá einstaklingum á sínum endurvinnslustöðvum, í Hafnarfirði að Breiðhellu. Samkvæmt skilgreiningu Sorpu þá falla eftirfarandi undir flokkinn garðaúrgangur: illgresi, arfi, blómaafskurður,grænmeti, laufblöð, plöntuleifar og pottablóm. Einnig er tekið gjaldfrjálst á móti trjábolum og trjágreinum, grasi og heyi en sérstakir gámar eru fyrir þessa flokka. Athugið að í flokka mega einungis fara ofangreind efni án aðskotahluta og annars efnis eins og plasts.

Grindverk og skjólveggir

Um slíkar framkvæmdir gilda ákveðnar reglur sem vert er að kynna sér áður en farið er af stað. Huga þarf að lóðamörkum hvort heldur sem er við lóð nágrannans eða að bæjarlandi. Heimilt er að reisa skjólvegg og girðingar allt að 1,8m að hæð sem eru ekki nær lóðarmörkum en 1,8m. Sækja þarf um heimild til byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar fari grindverk nær lóðarmörkum en hæð þess er. Einnig skal leggja fram til byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar samþykki nágranna/aðliggjandi lóðarhafa vegna grindverks á eða við lóðarmörk. Við gerð grindverks og annarra skjólveggja eru íbúar einnig hvattir til að huga að því hvort slíkar framkvæmdir hafi mögulega áhrif á umferðaröryggi með skerðingu sjónrænna tenginga við götu og gangstétt.

Á heimasíðu Mannvirkjastofnunar (www.mannvirkjastofnun.is/) má kynna sér frekar byggingarreglugerðina undir flipanum lög og reglugerðir. Sérstaklega er bent á grein 2.3.5. fyrir þá sem eru í framkvæmdarhugleiðingum á lóð sinni en þar er m.a. fjallað um framkvæmdir á lóð, skjólveggi, girðingar og smáhýsi á lóð.

Umhverfis- og skipulagsþjónusta Hafnarfjarðar

Garðyrkjustjóri Hafnarfjarðar

Ábendingagátt