Troðfullt af tækifærum fyrir ungt fólk í Hafnarfirði

Fréttir

Félagsstarf fyrir ungt fólk í Hafnarfirði hefur verið stokkað upp, eflt og bætt á nýjum stöðum í Hafnarfirði. Þetta er troðfullur pakki til unga fólksins – fullt af tækifærum.

Starf unga fólksins hefur fengið upplyftingu

Þjónusta við ungt fólk í Hafnarfirði hefur verið stokkuð upp. Ekki aðeins hefur bæjarfélagið fengið stimpilinn Barnvænt samfélag, sem þýðir ekkert um börn án barna, heldur hafa ný ungmennahús risið; hús sem þjónusta þau.

Nýtt ungmennahús sem kallast Hreiðrið við Lækinn er í Nýsköpunarsetrinu við Lækinn. Þá er unnið að því að efla gamla Músík og mótor. Starfseminni hefur verið skipt upp og verður á tveimur stöðum.

  • Músík við Lækinn er í Nýsköpunarsetrinu. Þar er frábær aðstaða fyrir hópa eða einstaklinga 13-25 ára sem vilja æfa og búa til tónlistarbönd.
  • Mótorhúsið verður hjá Kvartmíluklúbbnum við Kvartmílubraut 1 á Völlunum. Starfsemin mun skjóta þar rótum. Þar lærir ungt mótoráhugafólk beint af færustu mótorsérfræðingum okkar. Stefnt er að því að opna á næstunni.

Kletturinn er félagsstarf fatlaðs ungs fólks á aldrinum 16+. Kletturinn er á Suðurgötu 14. Bæði er dag- og kvöldstarf. Opið er fyrir ungmenni að skóladegi loknum frá 13-16.30. Svo er kvöldstarf tvisvar í viku, sem flestir þekkja sem Kvöldstarf í Húsinu og finna undir því heiti á Facebook. Það er á mánudögum og miðvikudögum, frá klukkan 18-22. Starfsemin er tvískipt. Annars vegar fyrir 16-20 ára og svo 20 ára og eldri. Sitthvor staður í húsinu, sitthvort starfsfólkið og ólík dagskrá fyrir hvorn hópinn.

Bergið grípur svo ungmenni 12-25 ár. Þar geta þau fengið fría ráðgjöf á miðvikudögum á Austurgötu 8. 50 mínútuna viðtöl eru í boði fyrir þau sem bóka sig í gegnum bergid.is. Þar má ræða allt milli himins og jarðar. Algengustu viðfangsefnin eru þunglyndi, kvíði, streita, ástarsorg. Þjónustan er vinsæl og áþekk því sem er hjá sálfræðingum. Aðeins ein regla gildir: Að vilja sjálfur koma.

Förum nánar yfir þetta: Hvað er í boði fyrir ungt fólk í Hafnarfirði?

  • Nýja ungmennahúsið Hreiðrið við Lækinn
  • Músík við Lækinn er í Nýsköpunarsetrinu
  • Mótorhúsið hjá Kvartmíluklúbbnum
  • Nýsköpunarsetið við Lækinn – list og ljósmynda aðstaða, stafræn smiðja og tónsmiðja til að taka upp tónlist eða hlaðvarp fyrir ungt fólk sem aðra
  • Kletturinn starf fyrir 16+ fötluð ungmenni.
  • Bergið – Frí ráðgjöf á miðvikudögum
  • Sumrin eru líka tími unga fólksins: Skapandi sumarstörf fyrir 18-25 ára og listahópur Vinnuskóli Hafnarfjarðar gera lífið skemmtilegra.

Svo má benda á að ekki aðeins eru 32 íþróttafélög með starfsemi í bænum, brettamennskan er öflug og Gafló, nýr leiklistarskóli Gaflaraleikhússins hefur opnað í Nýsköpunasetrinu. Og ekki gleyma að 16-18 ára fá frístundastyrk.

Nýsköpunarsetrið tilvalið fyrir unga fólkið

Til að auka enn á fjölbreytnina finnur ungt fólk svo ýmislegt annað í Nýsköpunarsetrinu við Lækinn. Setrið iðar af starfsemi og er tilbúið að fyllast af lífi. Þar má finna ýmislegt sem hentar ungu fólki. Þar er:

  • Hljóðsmiðjan. Þar getur þú tekið upp tónlist og gert hlaðvörp. Áframhald af því starfi sem er á bókasafninu.
  • Bollinn. Opið rými til að koma og vera. Þetta er hálfgerð kaffihúsaaðstaða. Þarna má fá sér sopa og hitta annað ungt fólk.
  • Ljósmyndaaðstaða. Stefnt er að því að vera með aðstöðu til að taka upp vídeó. Í ljósmyndaastöðunni er bakgrunnur fyrir stúdíóljósmyndun. Panta má tíma í aðstöðunni með pósti á nyskopunarsetur@hafnarfjordur.is
  • Tilraunasmiðja. Hún er tileinkuð listsköpun. Opið hús er á miðvikudögum frá 15-19. Hægt er að fá leiðsögn.
  • Tæknismiðjan er sköpunarsmiðja í anda FabLab með:
    • Vínilskera. Þar er til að mynda hægt að búa til límmiða sem má hengja á vegg, gler eða bíla. Einnig er hægt að skera í textílvínil og hitapressa á hitaþolið efni.
    • 3D prentar er á svæðinu
    • Leiserskera
    • Og vinna með kerfi sem heitir Sawgrass Sublimation. Þar má prenta út myndir sem hægt er að pressa á bolla eða efni sem búið er að meðhöndla.

En hvar fáum við efnivið til að taka þátt? Ákveðinn lager af hlutum er í setrinu sem fólk getur keypt gegn vægu gjaldi. Notkunar- og tækjagjald er 500 krónur á klukkutímann.

Slúnkuný og til í ævintýri saman

Bryndís Steina Friðgeirsdóttir er forstöðumaður Nýsköpunarsetursins við Lækinn. „Við erum svo splúnkuný og tilbúin að þróast enn frekar með félagsstarfi ungs fólks. Starfsemi okkar er svo fjölbreytt að við vonum að unga fólkið okkar sjái tækifæri til að mæta og njóta samveru og lista,“ segir hún.

„Hugmyndaskassi er á netinu til að þróa starfsemina enn frekar. Hægt er að stinga upp á enn fleiri hlutum til að gera. Segja sitt um hvaða starfsemi unga fólkið vill sjá í húsinu,“ segir hún og horft verði til hugmyndanna til að gera enn betur.

„Við fögnum klúbbastarfsemi. Spunaspilarar hittast til dæmis hér á fimmtudögum. Ungmennaráð Hafnarfjarðarbæjar fundar einnig í húsinu. Já, það er nóg um að vera,“ segir hún og bendir á að 20 fermetra fundarherbergi sé í húsinu sem megi í allskonar klúbbastarfsemi. „Það er nóg pláss.“

  • Nýsköpunarsetrið opnar kl. 9 á morgnanna. Þar er starfsfólk til kl. 22 á kvöldin vika daga.

Já, það er ýmislegt í boði fyrir unga fólkið. Og þetta er ekki allt. Við bendum sérstaklega á að bókasafnið er með Kit/Cosplaysmiðjur hálfsmánaðarlega þar sem ungmenni og fullorðin hittast og vinna með eigin búningahugmyndir –

Athugið að þetta er fyrir unglinga og eldri… ekki börn 😉

Bendum unga fólkinu okkar á öll tækifærin – Já, þetta er fyrir þau.

 

Ábendingagátt