Tuktuk í þjónustu bókasafnsins

Fréttir

Í sumar mun tuktuk sinna sögustundum á leikskólum og leikjanámskeiðum og bókasendingum í hverfi bæjarins.

Á fundi menningar- og ferðamálanefndar Hafnarfjarðar miðvikudaginn 10. júní var Bókasafni Hafnarfjarðar afhent umsjón með svokölluðum tuktuk, rafhjóli sem er ætlað að færa bókasafnið nær Hafnfirðingum í sumar.

Kaupin á TukTuk hjólinu voru hugsuð fyrst og fremst sem aukin þjónusta við ferðmenn sem upplýsingamiðstöð ferðamanna á hjólum á komandi árum. Hugsunin er að geta skotist á helstu viðburði í bænum yfir sumarið og þar sem er von á ferðamönnum t.d. við komu skemmtiferðaskipa. Í hjólinu verða bæklingar, kort og lukkuhjól sem gestir geta snúið og fundið sér áhugaverðan áningarstað í Hafnarfirði.

Í ljósi ástandsins í ár verður þó farartækinu ætlað annað hlutverk fyrst um sinn og verður nýtt fyrir þjónustu Bókasafns Hafnarfjarðar m.a. til að sinna sögustundum á leikskólum og leikjanámskeiðum, heimsóknum í ungmennastarf og bókasendingum á bókaskiptimarkaði sem ætlunin er að setja upp í hverfum bæjarins í sumar. Áhersla verður lögð á ytri hverfi bæjarins með það að leiðarljósi að færa þjónustu barnadeildar bókasafnsins til þeirra sem geta ekki eins auðveldlega nýtt sér þjónustu safnsins og að færa þjónustu sérhæfða börnum nær heimili þeirra. Þá mun tuktuk-inn vera nýttur að einhverju leyti í skapandi sumarstörfum í bænum í sumar og hugmyndir frá íbúum og starfsfólki um hvernig það vill sjá notkunina á honum eru vel þegnar.

Það var Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri sem skutlaðist með fyrstu bækurnar um miðbæinn undir vökulu auga Hugrúnar Margrétar Óladóttur deildarstjóra barna- og ungmennadeildar bókasafnsins og Elviru Gígju sem er ein af starfsmönnum verkefnisins í sumar.

Ábendingagátt