Tunnuskipti við heimili hefjast í maí  

Fréttir

Mikilvægt er að íbúar allir stígi þetta stóra skref í umhverfismálum saman, finni taktinn í magni og fjölda tunna og tileinki sér nýtt flokkunarkerfi. Með réttri flokkun er hægt að minnka sóun og endurnýta verðmæti.

Minnkum sóun og endurnýtum verðmæti

Með nýju flokkunarkerfi við heimili á suðvesturhorninu er stigið eitt stærsta skrefið í umhverfismálum sem sveitarfélögin hafa stigið frá því að hitaveita var lögð.  Með réttri flokkun er hægt að minnka sóun og endurnýta verðmæti í stað þess að þeim sé hent. Í einföldu máli snýst verkefnið um að öllum heimilum verður gert skylt að flokka fjóra flokka: Matarleifar, blandaðan úrgang, plast og pappír. Auk þess munu heimilin fá körfu og bréfpoka til að safna matarleifum inn í eldhúsi.

Þrjár tunnur meginreglan við sérbýli

Við sérbýli bætist við ný tunna, tvískipt fyrir matarleifar og blandaðan úrgang. Þær tunnur sem fyrir eru verða endurmerktar fyrir plast annarsvegar og pappír hinsvegar. Eftir samræmingu verður fyrirkomulag við sérbýli eftirfarandi:

  • Tvískipt tunna fyrir matarleifar og blandaðan úrgang
  • Tunna fyrir plastumbúðir
  • Tunna fyrir pappír og pappa

Fjöldi tunna við fjölbýli sniðinn að þörfum hvers fjölbýlis

Við öll fjölbýli verður komið við fjórum flokkum. Öll fjölbýli fá ný sorpílát fyrir matarleifar. Grátunnur endurmerktar fyrir blandaðan úrgang og plast og blátunnur endurmerktar fyrir pappír. Fjöldi tunna við fjölbýli verður sniðinn að þörfum hvers fjölbýlis.

Óskir um sérlausnir teknar til skoðunar frá og með hausti

Íbúar eru hvattir til að prófa nýtt fyrirkomulag og fjölda tunna í sumar og fram á haustið til að fá sem besta tilfinningu fyrir þörf heimilisins og þá ekki síst að þeirri flokkun sem snýr að pappír og plasti. Sorphirðutíðni mun áfram vera sú sama, á 28 daga fresti fyrir plast og pappír og 14 daga fresti fyrir matarleifar og blandaðan úrgang. Þegar dreifingu lýkur í haust verður hægt að kaupa annað tvískipt 240L sorpílát fyrir plast og pappír og skipta út fyrir 240L plastílát og 240L pappírsílát.

Karfa og bréfpokar undir flokkun matarleifa

Samhliða tunnuskiptum munu heimilin fá körfu og bréfpoka sem brotna auðveldlega niður undir matarleifar. Karfan sér til þess að það lofti um bréfpokann og hann haldist þurr. Gott er að tæma bréfpokana reglulega í tunnu undir matarleifar.

Upplýsingavefurinn er www.flokkum.is

Allar upplýsingar um nýtt og samræmt flokkunarkerfi á höfuðborgarsvæðinu má finna á vefnum www.flokkum.is. Nánari upplýsingar um tunnuskipti í Hafnarfirði verða gefnar út um miðjan maí. Íbúar eru hvattir til að kynna sér breytt fyrirkomulag á upplýsingavef um verkefnið og undirbúa sig vel fyrir það sem koma skal. Ef einhverjar spurningar vakna geta íbúar haft samband við þjónustuver Hafnarfjarðarbæjar í síma 585-5500, gegnum ábendingagáttina á vef bæjarins eða með tölvupósti á net­fangið hafnarfjordur@hafnarfjordur.is

Ábendingagátt