Tvöföld Reykjanesbraut frá Hafnar­firði til Reykja­nesbæjar opnuð

Fréttir

Tvöföld Reykjanesbraut milli  Krýsuvíkurvegar og Hvassahrauns opnaði formlega síðdegis í gær. Bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar fagnaði því í Haukaheimilinu um leið og hann minnti á að þessi áfangi væri einmitt áfangi á leið að enn betra samgöngukerfi.

Reykjanesbraut öll tvöföld til Reykjanesbæjar

Um 80 manns mættu til að fylgjast með Eyjólfi Ármanssyni innviðaráðherra, Bergþóru Þorkelsdóttur, forstjóra Vegagerðarinnar, og Valdimari Víðissyni, bæjarstjóra í Hafnarfirði, klippa á borða til að marka formlega opnun tvöföldunar Reykjanesbrautar milli  Krýsuvíkurvegar og Hvassahrauns. Áfanganum var fagnað í Haukaheimilinu.

Valdimar Víðisson bæjarstjóri sagði þar virkilega ánægjulegt að fagna þessum tímamótum. „Með þessari tvöföldun tökum við stórt skref í átt að öruggari og betri samgöngum. Tvöföldunin þýðir meira umferðaröryggi, skýrari aðskilnað akstursstefna, betra flæði og minni hættu á alvarlegum slysum. Þetta skiptir máli fyrir alla sem fara þessa leið, hvort sem það er til vinnu, í skóla, á flugvöllinn eða á milli bæjarfélaga,“ sagði hann.

„Fyrir okkur í Hafnarfirði skiptir þetta hins vegar alveg sérstaklega miklu máli. Reykjanesbrautin er helsta og stærsta samgönguæð sveitarfélagsins. Hún tengir okkur við höfuðborgarsvæðið, Suðurnesin, flugvöllinn og allt það atvinnulíf sem byggir á því að þessi tenging sé traust, greið og örugg.“

21.500 bílar um brautina á dag

Samkvæmt frétt Vegagerðarinnar af opnuninni hefur umferðin á Reykjanesbraut aukist jafnt og þétt undanfarna áratugi og því mikilvægt að aðskilja akstursstefnur á veginum til að auka öryggi vegfarenda. „Meðaltalsumferð (árdagsumferð) á Reykjanesbrautinni árið 2024 var 21.500 bílar á dag.“

Framkvæmdaverkið Reykjanesbraut (41) Krýsuvíkurvegur – Hvassahraun felist í breikkun Reykjanesbrautar á 5,6 km kafla frá Krýsuvíkurvegi að enda fjögurra akreina brautarinnar á Hrauni vestan Straumsvíkur.

Vegurinn hafi verið breikkaður í 2+2 aðskildar akreinar, mislægum vegamótum við álverið í Straumsvík hafi einnig verið breytt og útbúnar vegtengingar að Straumi og Álhellu. „Byggð voru mislæg vegamót við Rauðamel og útbúnar vegtengingar að Straumsvíkurhöfn og dælu- og hreinsistöð austan Straumsvíkur með undirgöngum. Einnig voru gerð undirgöng fyrir gangandi og hjólandi rétt austan við álverið sem og eftirlitsstaðir fyrir umferðareftirlit beggja megin Reykjanesbrautar, austan við Straumsvík.“

Vegagerðin opnaði tilboð í verkið í apríl 2023 og gekk til samninga við Íslenska aðalverktaka hf. í maí 2023.

Vill sjá Kaflann við Kaplakrika næstan

Valdimar sagði í ræðu sinni í Haukaheimilinu eftir opnunina næsta brýna verkefnið á Reykjanesbrautinni vera kaflann frá Kaplakrika að N1.

„Þar upplifa vegfarendur daglegar umferðarteppur á háannatímum, mikla og þunga umferð allan sólarhringinn og aðstæður sem hafa áhrif á bæði öryggi og lífsgæði íbúa,“ sagði hann og benti á að í næstu viku verði kynntir valkostir um framtíðarfyrirkomulag á þessum kafla. „Þar höfum við í Hafnarfirði verið skýr í okkar afstöðu: að okkar mati eru göng undir Setbergshamar álitlegasti kosturinn.“

Hann nefndi einnig mikilvægi Flóttamannaleiðarinnar svokölluðu. Öflug og örugg varaleið sé ekki lúxus. „Hún er hluti af grunnöryggi samfélagsins, skiptir máli fyrir viðbragðsaðila, fyrir flugsamgöngur, ferðaþjónustu, atvinnulíf og í raun allt þjóðarbúið. Við eigum að horfa á þessa leið sem þjóðarverkefni, ekki bara sem staðbundna vegaframkvæmd.“

Hann skoraði því á stjórnvald. „Við þurfum að taka skýrar ákvarðanir um þessa framtíðarkosti og tryggja fjármagn í þá lausn sem þjónar íbúum, umhverfi og öryggi best til lengri tíma.“

Að lokum óskaði hann öllum til hamingju með þennan mikilvæga áfanga á Reykjanesbraut.

Ábendingagátt