Um 100 manns sóttu ferðaþjónusturáðstefnu í Hafnarfirði um helgina

Fréttir

Rauði þráðurinn í erindum frummælenda var tvíþættur. Annarsvegar það að vörumerki eða mörkun sveitarfélags getur aldrei verið byggt á öðru en sannri upplifun gesta og íbúa hvers sveitarfélags eða áfangastaðar. Hinsvegar að ferðaþjónustan verði að vaxa og dafna innan ramma sem reynir hvorki á þolmörk íbúa né náttúru.

Hafnarfjarðarbær og Markaðsstofa Hafnarfjarðar stóðu fyrir vel heppnaðri ráðstefnu
um stöðuna og tækifærin í ferðaþjónustunni um helgina. Ráðstefnan fór fram í
Hafnarborg og bar yfirskriftina „Stefna og staða Hafnarfjarðar í ferðaþjónustu“.
Um eitt hundrað manns sóttu ráðstefnuna sem var hugsuð sem upphafsstef í
framtíðarvinnu þar sem lögð verður áhersla á framtíðarsýn og stefnumörkun fyrir
bæinn. Ekki einungis sem áfangastað fyrir erlenda gesti heldur einnig fyrir þá
sem þar búa og reka fyrirtæki.  

Fagfólk bæði úr fræðigreinum og ferðaþjónustu voru með erindi og í framhaldinu
voru áhugaverðar pallborðsumræður. Áherslan var á vörumerkjastefnur og
ferðamálastefnur, hvernig þær eru unnar, hvernig þeim er framfylgt og aðgerðaráætlanir
sem þeim þurfa að fylgja og hvernig unnið er með þær og þeim framfylgt.

Rauði þráðurinn í erindum frummælenda var
tvíþættur. Annarsvegar það að vörumerki eða mörkun sveitarfélags getur aldrei
verið byggt á öðru en sannri upplifun gesta og íbúa hvers sveitarfélags eða
áfangastaðar. Hinsvegar að ferðaþjónustan verði að vaxa og dafna innan ramma
sem reynir hvorki á þolmörk íbúa né náttúru. Það var í raun sameiginlegt stef
þeirra sem héldu kynningar sama hvort þeir komu frá Reykjavík eða Skaftárhrepp.

Helgi S. Gunnarsson forstjóri Regin kynnti svo áform félagsins um að byggja hótel við
Strandgötuna. Helgi kynnti teikningar af væntanlegri byggingu sem er teiknuð
upp sem mörg minni hús frekar en eitt stórt til að falla betur inn í götumynd Strandgötunnar.
Samkvæmt Helga, leitar félagið ennþá að hentugum aðila til að reka hótel í
byggingunni en sagðist finna fyrir miklum áhuga á framkvæmdinni og að Regin
væri að undirbúa verkefnið af fullum þunga.  

Fundarstjóri var Þór Bæring Ólafsson einn eigandi Gaman ferða og
stjórnarmaður í Markaðsstofu Hafnarfjarðar. Ráðstefnan var opin öllum bæði
fagaðilum og bæjarbúum með áhuga á greininni og sóttu hana um eitt hundrað
gestir. 

Ábendingagátt