Um 90% íbúa ánægð með bæinn sinn

Fréttir

Ánægja íbúa Hafnarfjarðar er áfram nokkuð há í sögulegu samhengi samkvæmt árlegri þjónustukönnun Gallup sem kynnt var í bæjarráði í morgun. 88% íbúa eru ánægðir með Hafnarfjörð sem stað til að búa á og er Hafnarfjörður yfir meðaltali sveitarfélaga á þessum þætti. Hafnarfjörður hækkar um 3 sæti á milli ára í lykilspurningu könnunar sem dregur saman heildarupplifun af þjónustu sveitarfélaganna. Vermir nú sæti 9 af 20 meðal stærstu sveitarfélaga landsins.

Ánægja íbúa áfram há í sögulegu samhengi

Ánægja íbúa Hafnarfjarðar er áfram nokkuð há í sögulegu samhengi samkvæmt
árlegri þjónustukönnun Gallup sem kynnt var í bæjarráði í morgun. 88% íbúa eru
ánægðir með Hafnarfjörð sem stað til að búa á og er Hafnarfjörður yfir
meðaltali sveitarfélaga á þessum þætti. Hafnarfjörður hækkar um 3 sæti á milli
ára í lykilspurningu könnunar sem dregur saman heildarupplifun af þjónustu
sveitarfélaganna. Vermir nú sæti 9 af 20 meðal stærstu sveitarfélaga landsins.

_V1A3090

Árið 2019 var metár mælinga 

Árið 2019 er áfram metár mælinga þegar ánægja íbúa
Hafnarfjarðar hækkaði í öllum þáttum, þar af marktækt í 12 af 13 þáttum. Þá
hafði m.a. ánægja með þjónustu við barnafjölskyldur, þjónustu leikskóla og
þjónustu við fatlað fólk ekki mælst hærri frá upphafi mælinga. Skorið lækkaði
lítillega í mælingum ársins 2020 og sömu sögu er að segja með skor ársins 2021.
Heilt yfir þá lækkar heildarmeðaltal allra sveitarfélaga á flestum þáttum sem
heyrir til nokkurra tíðinda og gæti gefið ákveðnar vísbendingar m.a. um áhrif
heimsfaraldurs á upplifun og ímynd landsmanna á tímum áskorana og umbreytinga.

Skoða niðurstöður úr
þjónustukönnun Gallup 2021

ThjonustukonnunGallup2021

Mat á
sveitarfélagi og breyting frá síðustu mælingu – sjá bls. 3 í niðurstöðum 

Yfir meðaltali í fimm þáttum

88% íbúa eru ánægðir með Hafnarfjörð sem stað til að búa á, 83%
íbúa eru ánægðir með aðstöðu til íþróttaiðkunar í sveitarfélaginu og 75% með
gæði umhverfisins í nágrenni við heimili sitt. Hafnarfjörður er á pari við
önnur sveitarfélög í fjórum þáttum og yfir meðaltali í fimm þáttum sem snúa að
heildaránægju með sveitarfélagið sem stað til að búa á, ánægju með aðstöðu til
íþróttaiðkunar í sveitarfélaginu, ánægju með það hvernig sveitarfélagið sinnir
menningarmálum, þjónustu við eldri borgara í sveitarfélaginu og skipulagsmál
almennt í sveitarfélaginu. Hafnarfjörður
er undir meðaltali þegar kemur að þjónustu leikskóla, þjónustu við sorphirðu og
þjónustu við fatlað fólk.

Sífellt
fleiri íbúar virðast nýta sér snjallar lausnir

Ánægja með þjónustu við eldri borgara og hversu vel
starfsfólk bæjarins leysir úr erindum bæjarbúa hækkar milli ára. Sífellt fleiri
íbúar virðast nýta sér nýjar og snjallar lausnir á hafnarfjordur.is til sjálfsafgreiðslu
og öflun upplýsinga á vef og á öðrum miðlum bæjarins. Talar þetta í takti við
opinberar vefmælingar sveitarfélagsins. Hafnarfjörður stendur í stað í fimm
þáttum í mælingunni 2021 og lækkar í sex þáttum, þar af marktækt í þremur
þáttum. Þættir sem lækka marktækt á milli ára eru ánægja með leik- og
grunnskóla bæjarins og ánægja í tengslum við sorphirðu í sveitarfélaginu. Vonir
standa til þess að fyrirætlanir um samræmt sorphirðukerfi á höfuðborgarsvæðinu og sértækar aðgerðir til starfsmanna leikskóla verði til þess að auka ánægju íbúa.

Tækifæri til úrbóta blasa við

Að baki eru tvö mjög sérstök ár sem einkennast af heimsfaraldri
og áherslu á óskerta grunnþjónustu með tilheyrandi áhrifum á dagleg störf. Árin
hafa bæði reynst viðkvæmum samfélagshópum erfið og skapað nýjar og öðruvísi
áskoranir og álag á stærstu starfsmannahópa sveitarfélagsins. Framundan eru
krefjandi verkefni á vettvangi sveitarfélaga og aðgerðir sem miða að því að
styrkja grunnstoðir bæjarins þar til andi og efnahagslíf hafa náð fyrri styrk. Stærstu
verkefni sveitarfélagsins næstu
vikur, mánuði og ár snúa m.a. að innri og ytri endurreisn, stuðningi og uppbyggingu.
Tækifæri til úrbóta blasa við og þessa dagana stendur m.a. yfir mótun framtíðarsýnar og stefnu fyrir Hafnarfjörð til ársins 2035. Með framkvæmdinni er stórt skref
stigið í þá átt að tengja betur saman allar stefnur sveitarfélagsins og búa til
skýra framtíðarsýn sem unnin er í víðtæku samráði starfsfólks, íbúa,
atvinnulífs, bæjarfulltrúa og annarra hagaðila og hagsmunaaðila. Skýrari
sýn og stefna til lengri tíma og stefnumarkandi áætlanir með mælanlegum
markmiðum til skemmri tíma er til þess fallin svari enn betur ákalli íbúa eftir aukinni þjónustu
og nýrri þjónustu sem aftur hefur keðjuverkandi áhrif á ánægju þeirra.

Um þjónustukönnun Gallup

Gallup framkvæmir árlega þjónustukönnun meðal tuttugu stærstu
sveitarfélaga landsins til þess að kanna ánægju með þjónustu og gera samanburð
þar ásamt því að skoða breytingar frá fyrri mælingum. Gagnasöfnun fór fram
dagana 8. nóvember 2021 – 12. janúar 2022. Um er að ræða lagskipt
tilviljunarúrtak 18 ára og eldri úr viðhorfahópi Gallup. Gagnaöflun stóð yfir
þar til tilteknum fjölda svara var náð í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Í
Hafnarfirði svöruðu 408 einstaklingar könnuninni. Niðurstöðurnar gefa ákveðna
hugmynd um ánægju íbúa með ákveðna þjónustuþætti óháð því hvort viðkomandi nýti
sér þjónustuna eða ekki. Samhliða fást upplýsingar um þjónustuþætti sem gott
væri að rýna betur. Niðurstöðurnar voru
birtar á fundi bæjarráðs í morgun.

Niðurstöður eldra þjónustukannanna Gallup

Fundargerð bæjarráðs frá 17. febrúar 2022  

Ábendingagátt