Umhverfisstefnan endurskoðuð – leiðin mörkuð fram á við

Fréttir

Skerpt hefur verið á umhverfis- og auðlindastefnu Hafnarfjarðarbæjar. Stefnan hefur verið samþykkt í bæjarstjórn.

Stefna í takt við nýja tíma

Umhverfis- og auðlindastefna Hafnarfjarðarbæjar hefur verið uppfærð og er hún unnin í takt við tímann. Hún var samþykkt af bæjarstjórn 4. júní. Markmið stefnunnar er að tryggja öllum íbúum Hafnarfjarðarbæjar heilnæmt og öruggt umhverfi til lífs, leiks og starfa. Taka skal tillit til hennar í allri starfsemi sveitarfélagsins.

Tekið er fram í stefnunni að Hafnarfjörður skuli leitast við að vera í fararbroddi í sjálfbærni og umhverfismálum, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og myndunar úrgangs.

Markviss umbótarvinna

Markviss vinna við uppfærsluna fór fram og var íbúum gefinn kostur á að koma með athugasemdir. Þær voru rýndar og höfðu sín áhrif á útkomuna.

Uppfærða stefnan er byggð á Umhverfis- og auðlindastefnu Hafnarfjarðarbæjar sem samþykkt var 18. maí 2018. Auk þess er horft til sameiginlegrar loftslagsstefnu höfuðborgarsvæðisins sem samþykkt var 11. ágúst 2023 og settar fram aðgerðir sem geta stuðlað að kolefnishlutleysi Hafnarfjarðar árið 2035. Í stefnunni felst einnig loftslagsstefna Hafnarfjarðar. Einnig er horft til Heildarstefnu Hafnarfjarðarbæjar sem samþykkt var 6. apríl 2022 og Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

Brotin niður í sex kafla

Höfundar endurskoðaðrar stefnu eru: Guðbjörg Oddný Jónasdóttir, Helga Björg Loftsdóttir, Jón Atli Magnússon, Hildur Rós Guðbjargardóttir, Íris Lind Sæmundsdóttir, Ragna Halldórsdóttir og Guðmundur Elíasson.

Stefnunni er skipt í sex kafla.

  1. Auðlindir, náttúra og menningarminjar
  • Stefnt er að því að Hafnarfjörður verði í fararbroddi sveitarfélaga á Íslandi við verndun náttúrunnar, auðlinda og menningarminja
  1. Mengunarvarnir og umhverfisvöktun
  • Kappkostað verður að koma í veg fyrir hvers kyns mengun og draga úr henni eins og kostur er
  1. Neysla og úrgangur
  • Verulega skal dregið úr notkun á einnota umbúðum og vörum og að innkaup bæjarins og undirverktaka þess verði umhverfisvæn. Dregið verði úr allri sóun eftir fremsta megni með vitundarvakningu og fræðslu
  1. Samgöngur og skipulag
  • Stefnt er að því að auka hlut gangandi, hjólandi og notenda almenningssamgangna og tekið verði mið af því við gerð aðalskipulags, deiliskipulaga og samgöngumannvirkja
  1. Umhverfisfræðsla
  • Aðgengi bæjarbúa að upplýsingum um umhverfismál, í nærumhverfi sínu og landi bæjarins, skal vera til fyrirmyndar
  1. Byggingar og framkvæmdir
  • Hafnarfjarðarbær hvetur til þess að tilfallandi efni og úrgangi frá uppbyggingu og nýbyggingu verði lágmörkuð og efni endurnýtt innan svæðis

Þetta er að sjálfsögðu ekki tæmandi listi og má lesa um stefnu og aðgerðir í stefnunni hér.

Já, þetta er stefna sem markar greiða leið fram veginn!

 

 

 

 

 

Ábendingagátt