Tilslakanir takmarkana frá og með 29. janúar

Fréttir

Almennar fjöldatakmarkanir verða 50 manns, nándarregla verður 1 metri, krár og skemmtistaðir mega opna að nýju og opnunartími þeirra og annarra veitingastaða verður lengdur um tvær klukkustundir. Heimilt verður að halda sitjandi viðburði fyrir 500 manns að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Takmarkanir í skólum verða að mestu óbreyttar. Þetta er megininntak breytinga á reglugerð um samkomutakmarkanir sem tekur gildi 29. janúar samkvæmt ákvörðun heilbrigðiráðherra.

COVID-19: Umtalsverðar tilslakanir innanlandstakmarkana frá og með 29. janúar

Almennar fjöldatakmarkanir verða 50 manns, nándarregla verður 1 metri, krár og skemmtistaðir mega opna að nýju og opnunartími þeirra og annarra veitingastaða verður lengdur um tvær klukkustundir. Heimilt verður að halda sitjandi viðburði fyrir 500 manns að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Takmarkanir í skólum verða að mestu óbreyttar. Þetta er megininntak breytinga á reglugerð um samkomutakmarkanir sem tekur gildi 29. janúar samkvæmt ákvörðun heilbrigðiráðherra.

Tilkynning á vef Stjórnarráðsins   

Heilbrigðisráðherra kynnti áformaðar breytingar á fundi ríkisstjórnar í morgun. Byggt er á meðfylgjandi minnisblaði sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra. Í því er jafnframt að finna drög að afléttingaráætlun til næstu sex vikna.

Breytingar frá og með 29. janúar:

  • Almennar fjöldatakmarkanir fari úr 10 í 50 manns.
  • Nándarregla fari úr 2 metrum í 1 metra.
  • Óbreytt grímuskylda, sem tekur þó almennt mið af nándarreglu.
  • Sund-, baðstaðir, líkamsræktarstöðvar og skíðasvæði verði heimilt að hafa opið með 75% afköstum.
  • Íþróttakeppnir verði áfram heimilar með 50 þátttakendum og áhorfendur séu leyfðir á ný.
  • Hámarksfjöldi í verslunum geti mest orðið 500 manns.
  • Skemmtistöðum, krám, spilastöðum og spilakössum verði heimilað að opna á ný.
  • Veitingastöðum, þ.m.t. krám og skemmtistöðum, verði heimilt að hleypa nýjum viðskiptavinum til kl. 23.00 en gestum verði gert að yfirgefa staðina kl. 00.00.
  • Á sitjandi viðburðum verði heimilt að taka á móti allt að 500 gestum í hverju hólfi, viðhalda skuli 1 metra nándarreglu milli óskyldra aðila auk grímuskyldu. Ekki verði þörf á hraðprófum.
  • Í skólum verði óbreyttar takmarkanir, þó þannig að þær verði aðlagaðar framangreindum tilslökunum eftir því sem við á.
  • Reglugerðin gildi í tæpar fjórar vikur til og með 24. febrúar.

Ráðherra vék lítillega frá tillögum sóttvarnalæknis, þ.e. með því að láta nýju reglurnar taka gildi fyrr, lengja opnunartíma veitingastaða um tvær klukkustundir í stað einnar og hækka hámarksfjölda í verslunum.

Drög að afléttingaráætlun og forsendur hennar

Í minnisblaði sínu leggur sóttvarnalæknir fram áætlun að afléttingu opinberra sóttvarnaaðgerða sem hann telur rétt að gera í skrefum. Sóttvarnalæknir áréttar að meðan á afléttingum stendur megi búast við að samfélagssmitum muni fjölga tímabundið sem geti bæði haft þau áhrif að þeim sem veikist alvarlega fjölgi en jafnframt geti starfsemi margra fyrirtækja raskast vegna veikinda starfsmanna. Neyðarástand geti því skapast á mörgum vinnustöðum sem krefjist sérstakra úrræða og fyrirtæki þurfi að vera undir það búin að starfa í einhvern tíma með skertu vinnuafli. Mikilvægt sé að hafa í huga að faraldrinum ljúki ekki hér á landi fyrr en gott samfélagslegt ónæmi hafi skapast, sem gæti náðst eftir tæpa tvo mánuði. Sóttvarnalæknir telur, að þessu framanröktu, skynsamlegt að miða við að um miðjan mars 2022 verði öllum takmörkunum aflétt svo fremi sem núverandi forsendur haldi, þ.e. ekki komi upp ný afbrigði veirunnar og aukning verði ekki á alvarlegum veikindum sem valdi of miklu álagi á heilbrigðiskerfið eða of mikil veikindaforföll starfsmanna verði í ýmsum fyrirtækjum sem skapi neyðarástand.

Heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnin munu hafa afléttingaráætlunina til hliðsjónar vegna næstu afléttinga og verður staðan metin reglulega, einkum álag á heilbrigðiskerfið, og verður brugðist við í samræmi við stöðuna. Það getur þýtt að ráðist verði fyrr í afléttingar en áætlunin gerir ráð fyrir eða þeim frestað ef forsendur breytast, svo sem vegna nýrra afbrigða veirunnar.

Ábendingagátt