Undanfari uppbyggingar á Norðurbakka

Fréttir

Framkvæmd við lokafrágang á Norðurbakkasvæðinu má skipta upp í fjóra áfanga og felur heildarframkvæmdin í sér undirbúning og frágang út frá umhverfis- og öryggissjónarmiðum áður en endanlegur frágangur á yfirborði tekur við. Fyrstu framkvæmdir hefjast haust – vetur 2020. Útboð fyrsta áfanga verkefnisins er nú komið í auglýsingu.

Undanfari uppbyggingar á Norðurbakka – framkvæmdir hefjast

Á fundi hafnarstjórnar þann 12. ágúst sl. var samþykkt að ráðast í útboð á verkinu „Norðurbakki – grjótvörn“ og er framkvæmdin undanfari frekari uppbyggingar og fullnaðarframkvæmda við Strandstíginn og útivistarsvæði á Norðurbakka og við Norðurgarð. Teiknistofan Landslag og verkfræðiþjónustan Strendingur hafa unnið að undirbúningi og hönnun verkefnisins í samvinnu við Hafnarfjarðarhöfn og umhverfis- og skipulagssvið Hafnarfjarðarbæjar  Útboð fyrsta áfanga verkefnisins er nú komið í auglýsingu. 

NordurbakkinnUtivist3Norðurbakkinn á að verða ein af náttúruperlum Hafnarfjarðar 

NordurbakkinnUtivist

Hönnun svæðisins miðar að því að halda hráu og heillandi yfirbragði þess. 

NordurbakkinnUtivist2Fjölbreytt og heillandi útivistarsvæði mun rísa á Norðurbakka til lengri tíma litið. Nóg pláss fyrir gangandi og hjólandi. 

Búið er að samþykkja að fara í hönnun og yfirborðsfrágang á Norðurbakka í Hafnarfirði m.a. með það að markmiði að tengja hann betur við miðbæ Hafnarfjarðar og gera Norðurbakkasvæðið í heild enn meira aðlaðandi fyrir íbúa og gesti. Grjótvörnin gefur möguleika á að koma fyrir flotbryggju á svæðinu í framtíðinni. Austasti hluti Norðurbakkans verður ekki grjótvarinn en þar er dorgveiði m.a. mjög vinsæl.

Fjórskipt framkvæmd

Framkvæmd við lokafrágang á Norðurbakkasvæðinu má skipta upp í fjóra áfanga og felur heildarframkvæmdin í sér undirbúning og frágang út frá umhverfis- og öryggissjónarmiðum áður en endanlegur frágangur á yfirborði tekur við. Í fyrsta áfanga haust og vetur 2020/2021 verður grjótvörn sett framan á stálþil við Norðurbakka og er gert ráð fyrir að þessum framkvæmdum ljúki í byrjun árs 2021. Annar áfangi kemur til framkvæmda sumarið 2021 þegar bætt verður við grjótvörn utan á Norðurgarð. Áfangi þrjú felur svo í sér endurbyggingu og hækkun á Norðurgarði en ekki liggur endanlega fyrir með verklok þeirra framkvæmda. Í framhaldi af grjótvörn við Norðurbakkann verður farið í fyrstu áfanga við frágang á yfirborði bakkans en stefnt er að því að gera hann að fjölbreyttu og heillandi útivistarsvæði sem hluta Strandstígsins – allt frá Langeyrarmölum að smábátahöfninni.

  • 1. áfangi. Framkvæmd: Grjótvörn á Norðurbakka. Framkvæmdatími: Haust – vetur 2020/2021
  • 2. áfangi. Framkvæmd: Grjótvörn á Norðurgarð. Framkvæmdatími: Sumar 2021
  • 3. áfangi. Framkvæmd: Endurbygging Norðurgarðs. Framkvæmdatími: Kynnt síðar
  • 4. áfangi. Framkvæmd: Frágangur á yfirborði Norðurbakka. Framkvæmdatími: Kynnt síðar

GrjotgardurYfirlitsmynd

Yfirlit yfir heildarframkvæmdina. Undirbúningur áður en endanlegur frágangur á yfirborði tekur við. 

GrjotgardurNordurgardurGrjotgardurNordurbakkiSvona mun ásýnd grjótgarða við Norðurbakka og Norðurgarð verða við lok framkvæmda.

NordurbakkinnUtivist4Norðurgarðurinn verður hækkaður þannig að hann standi upp úr hæstu flóðum.

Inngrip á svæðið með tilfallandi áreiti og álagi á íbúa

Framkvæmdin mun eðlilega fela í sér nokkurt inngrip á Norðurbakkasvæðinu sem íbúar munu verða varir við. Þar sem verkið er í þéttbyggðu íbúðarhverfi og aðkoma að svæðinu þröng þá verður áhersla lögð á að flytja sem mest efni að verkstað frá sjó með dæluskipi/pramma til að lágmarka áreiti og tryggja öryggi þeirra sem um framkvæmdasvæðið fara. Aðkoma að svæðinu verður þannig annars vegar frá sjó og hinsvegar, þegar ekki verður hjá því komist, frá vegi við hlið Norðurbakka 13. Þannig þarf t.d. að vinna grjóthleðslu frá bakka. Rík áhersla verður lögð á að öll umgengni og umhirða á svæðinu verði góð. Nánari upplýsingar um framgang verksins verða aðgengilegar á vef Hafnarfjarðarbæjar eftir því sem við á. 

Íbúum og rekstraraðilum á svæðinu er fyrirfram þakkaður sýndur skilningur á meðan á framkvæmdum stendur.

Ábendingagátt