Vitinn: Unglingur í uppreisn sem fann sinn farveg

Fréttir

Sviðsljósið í Vitanum þessa vikuna á John Friðrik Bond Grétarsson, verkefnastjóri Hamarsins, ungmennahúss sem opnað var í gömlu Skattstofunni að Suðurgötu 14 í Hafnarfirði fyrir rétt tæpu ári síðan. Í þessum þætti segir John okkur frá orkunni sem hann var uppfullur af sem ungt barn og baráttu hans við að beisla orkuna og finna sinn farveg. Ungur ákvað hann að mennta sig í tómstunda- og félagsmálafræði og nýta þannig reynslu sína og sögu öðrum ungmennum til eflingar og hvatningar.

Sviðsljósið í Vitanum þessa vikuna á John Friðrik Bond Grétarsson, verkefnastjóri Hamarsins, ungmennahúss sem opnað var í gömlu
Skattstofunni að Suðurgötu 14 í Hafnarfirði fyrir rétt tæpu ári síðan. Í þessum
þætti segir John okkur frá orkunni sem hann var uppfullur af sem ungt barn og
baráttu hans við að beisla orkuna og finna sinn farveg. Ungur ákvað hann að
mennta sig í tómstunda- og félagsmálafræði og nýta þannig reynslu sína og sögu
öðrum ungmennum til eflingar og hvatningar.

Hlusta á þáttinn

John Bond var, að eigin sögn, kátur, hress og hvatvís og uppátækjasamur með
eindæmum og skólinn ekki endilega sá vettvangur þar sem þessir eiginleikar hans
fengu að njóta sín. Hann var um nokkurra ára skeið í uppreisn en ákvað, við 16
ára aldur, að spila með foreldrum og barnaverndarnefnd þegar honum voru settir
afarkostir um að fara í langtímaúrræði út á land eða taka þátt í
forvarnarverkefni hér í Hafnarfirði sem sniðið var í kringum hann og fleiri orkumikla
stráka og vini. Hópurinn skýrði verkefnið UÁB – unglingar á batavegi – og mótaði
í framhaldinu umhverfi og félagsstarf þar sem þeir fengu að blómstra á eigin
forsendum og út frá eigin hæfileikum undir góðri handleiðslu. Á þessum
tímapunkti sá John ljósið og kosti þess að hætta í uppreisn og taka þátt og verða
fyrirmynd og vinur ungmenna sem eru að fóta sig í lífinu. Eftir útskrift
starfaði John um árabil í Vinakoti, heimilislegu búsetuúrræði og
þjónustumiðstöð fyrir ungmenni með fjölþættan vanda.

John segir okkur einnig frá starfinu sem er að eiga sér stað
í Hamrinum og hvernig hann vill ekki vera „hausinn“ í starfinu. Ungmennin sjálf
sjá alfarið um að skipuleggja kvöldopnanir en dagstarfið og móttaka ólíkra og
fjölbreyttra ungmenna á öllum aldri með mismunandi áhugamál yfir daginn er á
hans hendi. John og ungmennin mótuðu og
sköpuðu ungmennahúsið og starf hússins frá grunni og er starfið enn í mótun og
mun verða áfram.

Viðtöl við áhugaverða
einstaklinga sem starf í þágu sveitarfélagsins

Í Vitanum er spjallað við áhugaverða einstaklinga sem starfa
í þágu bæjarins. Þannig er tekin fyrir þjónusta sveitarfélagsins, áhugaverð
þróunarverkefni og viðfangsefni á fjölbreyttu sviði. Hlaðvarpið opnar á
ítarlegri umfjöllun um einstaka verkefni, þjónustu og mál sem eru mikið í
umræðunni hverju sinni. Hægt er að nálgast alla þætti Vitans á heimasíðu
Hafnarfjarðarbæjar en einnig á hlaðvarpsveitum á borð við Spotify , Simplecast
og Podcast Addict.

Hlusta á þáttinn

Ábendingagátt