Ungmennaráðið lagði tillögur fyrir bæjarstjórnina

Fréttir

Fulltrúar í ungmennaráði Hafnarfjarðar lögðu 12 tillögur fyrir bæjarstjórn á fundi þeirra í dag þann 26. mars. Allar fara tillögurnar áfram til umræðu innan viðeigandi ráða.

Öllum tillögum vísað áfram til umræðu 

Fulltrúar í ungmennaráði Hafnarfjarðar lögðu 12 tillögur fyrir bæjarstjórn á fundi þeirra í dag þann 26. mars. Unga fólkið ræddi mikilvægi hjúkrunarfræðinga í grunnskólum, hinsegin málefni, meira samráð við ungmenni, lengri opnunartíma sundlauga og ýmis önnur málefni sem brenna á þeim.

Þau stigu í pontu eitt af öðru. Bæjarfulltrúarnir hlustuðu af athygli. Valdimar Víðisson bæjarstjóri sagði ljóst að unga fólkið legði áherslu á að talað væri við þau en ekki um þau.

„Það er mikilvægt að þið fáið líka niðurstöðu og að vita hvað verður um tillögurnar,“ sagði bæjarstjóri og þakkaði fyrir greinargóðar tillögur og að unga fólkið léti sig samfélagið varða. Unnið væri úr þeim á næstu vikum og mánuðum.

Unnið með Ungmennaráðinu

Kristín Thoroddsen sagði að strax í næstu viku yrði ungmennaráðið boðað á fund Fræðsluráð. Tillögur þeirra væru bæði rökstundar og útfærðar. Hún sæi leiðir til að vinna með þær flestar. Hún hlakkaði til að vinna enn frekar með unga fólkinu.

Guðmundur Árni Stefánsson hvatti unga fólkið til að taka þátt í ungliðastarfi stjórnmálaflokkanna. Jón Ingi Hákonarson sagði ungliðaheimsóknina í bæjarstjórn einn skemmtilegasta bæjarstjórnarfundinn ár hvert. Nú væri lag fyrir unga fólkið að koma málunum sínum fram enda aðeins ár til kosninga.

Stefán Már Gunnlaugsson hvatti unga fólkið til að halda málunum sem hefðu ekki fengið framgang á lofti. „Því dropinn holar steininn.“

Svona hljómuðu tillögurnar. Ungmennaráð Hafnarfjarðar leggur til:
  1. Að Hafnarfjarðarbær ráðist í aðgerðir í þágu ungmenna með fatlanir.
  2. Að hjúkrunarfræðingar séu til staðar alla daga í grunnskólum Hafnarfjarðar.
  3. Að haft verði meira samráð við ungmenni þegar teknar eru ákvarðanir sem hafa áhrif á börn.
  4. Að opnunartími sundlauga bæjarins verði lengdur um helgar.
  5. Að fulltrúar Ungmennaráðs fái greitt fyrir fundarsetu í ráðum og nefndum.
  6. Að Ungmennaráð fái fulltrúa í fræðsluráði.
  7.  Að opnunartímar í bókasöfnum grunnskólanna verði lengdir og söfnin verði gerð aðgengilegri nemendum.
  8. Að Hafnarfjarðarbær ráðist í aðgerðir í þágu hinsegin ungmenna.
  9. Að aðgengi að leiklista- og sönglistavali sé aukið í öllum grunnskólum bæjarins.
  10. Að ruslatunnum í bæjarlandinu verði fjölgað og aðgengi að þeim bætt.
  11. Að frítt verði í Strætó fyrir börn undir 18 ára aldri, tíðni á leið 19 verði aukin og þjónusta Strætó aukin í Setbergi.

13-18 ára í Ungmennaráðinu

Ungmennaráð Hafnarfjarðar er vettvangur fyrir ungt fólk á aldrinum 13-18 ára. Áhersla er lögð á þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum ásamt því að koma skoðunum ungs fólks til réttra aðila innan stjórnkerfisins.

Í Ungmennaráði sitja tveir fulltrúar úr hverjum grunnskóla í Hafnarfirði, þrír úr hverjum framhaldsskóla í Hafnarfirði og þrír fulltrúar sem eru valdir í gegnum ungliðastarfið.

Starfsmenn ráðsins eru tveir og starfa þeir fyrst og fremst sem ráðgjafar og hafa því ekki áhrif á starfsemi þess. Markmið ráðsins að skapa vettvang og leiðir fyrir þá sem eru yngri en 18 ára til að koma skoðunum sínum og tillögum á framfæri við viðeigandi aðila. Þátttaka ungs fólks er mikilvæg til þess að bæta þjónustu og aðstæður þeirra. Á það fyrst og fremst við um málefni sem viðkemur ungu fólki á einn eða annan hátt og þau þekkja af eigin raun. Þar má nefna skólastarf, tómstundastarf og skipulag nánasta umhverfis.

Nánar um ungmennaráð Hafnarfjarðar

 

 

 

Ábendingagátt