
Hraun vestur
Hraun vestur er reitur sem afmarkast af Fjarðarhrauni, Hjallahrauni, Reykjavíkurvegi. Svæðið er vel staðsett hvað varðar göngufjarlægðir innan Hafnarfjarðar sem og m.t.t. umferðartenginga innan bæjar og á höfuðborgarsvæðinu. Stutt er í alla þjónustu og miðbær Hafnarfjarðar er í göngufæri.
Landnotkun reitsins er samkvæmt gildandi aðalskipulagi íbúðarbyggð, verslun- og þjónustusvæði, samfélagsþjónustusvæði en af langstærstum hluta athafnasvæði. Starfsemi á svæðinu er fjölbreytt og blómleg, en fyrirkomulag byggðar á svæðinu Hraun Vestur er að mörgu leyti barn síns tíma. Einnig hafa hugmyndir um samsetningu byggðar breyst í gegnum árum og iðnaður hefur víða vikið fyrir verslun, þjónustu, íbúðabyggð og annarri starfsemi. Á síðari árum hefur svæðið þróast í þá átt að bera frekar einkenni miðsvæðis með veitingastöðum, verslunum, skrifstofum og tengdri þjónustu en það vantaði heildarsýn fyrir svæðið í heild sinni.
Vönduð búsetuumhverfi og fjölbreytt atvinnustarfsemi
Miklir möguleikar felast í framtíðaruppbyggingu á svæðinu. Stefnt að því að gefa svæðinu nýtt andlit og er fyrsta skrefið í ferlinu breytingu á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 á þann veg, að á svæðinu verð skilgreind ný landnotkun, svokallað Miðsvæði, sem geri ráð fyrir blandaðri byggð. Með breytingu landnotkunar í miðsvæði verður heimilt að vera með íbúðir og atvinnustarfsemi í bland ásamt því að gert er ráð fyrir að uppbygging á reitunum gefi svigrúm fyrir þá starfsemi sem fyrir er.
Hraun Vestur mun bjóða upp á íbúðir tiltölulega miðsvæðis í bæjar-/borgarmiðuðu umhverfi þar sem gott aðgengi er að margvíslegri þjónustu ásamt almenningssamgöngum. Lögð er áhersla á að leik- og græn svæði, með góðu aðgengi, séu á svæðinu.
Þróunaráætlun Hraun Vestur sem leiðarvísir
Aðalskipulagsbreytingin er samofinn þróunaráætluninni fyrir Hraun vestur sem hefur verið samþykkt í Bæjarstjórn Hafnarfjarðar þann 05.06.2024. Þróunaráætlunin er ekki bindandi skipulagsáætlun heldur sterkar stýrilínur og heildarsýn, meginstefna og leiðarljós til framtíðar uppbyggingar á umfangsmiklu svæði. Markmiðið er að gefa kost á uppbyggingarmöguleikum og blandaðri notkun og að gefa hverfinu færi á að umbreytast hægfara í þétta, blandaða byggð.
Þróunaráætlun er unnin á forsendum þeirrar byggðar sem fyrir er m.a. þannig að þau mannvirki sem eru til staðar geti staðið áfram og breyst í takt við byggðamynstur og notkun. Uppbygging á svæðinu mun gerast í áföngum og taka langan tíma.
Deiliskipulagsáætlanir
Í kjölfar aðalskipulagsbreytingar eða samhliða kynningu hennar verður unnið að deiliskipulagsbreytingum reita þeirra aðila sem þess óska í samvinnu við umhverfis- og skipulagssvið, þar sem unnið verður deiliskipulag þar sem gerð verður nánari grein fyrir uppbyggingu m.t.t. nýtingar, formunar bygginga, samspils opinna svæða og umhverfisgæða sem og áfangaskiptingu og settir skilmálar. þróunaráætlunin er verkfæri sem nýtast við gerð deiliskipulagsáætlana fyrir lóðarhafa og skipulagsyfirvöld þegar kemur að deiliskipulagningu einstakra reita. Deiliskipulag hefur verið samþykkt árið 2021 fyrir hverfið Gjótur með 490 íbúðum. Tillögur að deiliskipulagi fyrir fleiri hverfi eru í vinnslu.
Deiliskipulag má nálgast á Kortavef bæjarins – velja deiliskipulag í valstiku til hægri og finna svæði
Hverfin í hverfinu
Í þróunaráætluninni er svæðinu skipt upp í sjö hverfi sem öll hafa einhverja einkennandi sérstöðu: Gjótur, Flatir, Hjallar, Hellur, Trönur, Dalur og Stakkar. Hvert hverfi er þróað útfrá þessu sérkenni og íbúðabyggð blandast því hverju hverfi á mismunandi hátt. Grænt svæði teygir sig frá suðri til norðurs og tengir saman mismunandi hverfi.