Upplifum hlýjan jólaanda í Hafnarfirði

Fréttir Jólabærinn

„Full þakklætis fyrir góðar viðtökur undanfarin ár hlökkum við til komandi vikna og óskum þess innilega að sem flestir njóti aðventunnar í jólabænum Hafnarfirði,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri í pistli sem hún ritar í Jólablað Hafnarfjarðarbæjar 2024.

 

„Mild og falleg jólaljósin eru farin að lýsa upp tilveru okkar og við undirbúum þennan dásamlega tíma sem í hönd fer. Við Hafnfirðingar tökum glöð á móti gestum í jólabænum sem styrkt hefur sig í sessi sem slíkur undanfarin ár,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri í pistli sem hún ritar í Jólablað Hafnarfjarðarbæjar 2024.

„Ánægjulegt er að sjá hve mikill fjöldi fólks sækir okkur heim á aðventunni til að upplifa hinn eina, sanna jólaanda í fallegu og friðsælu umhverfi. Hlýleikinn laðar að; jólaljósin ylja, einstakir veitingastaðir freista, fallegar verslanir bjóða upp á sérhæft vöruúrval, menningarhúsin auðga andann en fyrst og fremst er það afslappað andrúmsloftið, umhverfið og stemningin í jólabænum Hafnarfirði sem fólk sækir í.

Með hverju árinu hefur jafnt og þétt verið lögð meiri alúð í að skreyta og fegra bæinn, koma honum í jólabúning og breyta og bæta. Möguleikum til afþreyingar fjölgar, listaog menningarlífið blómstrar sem aldrei fyrr á aðventunni og gaman er að sjá hvernig íbúar og rekstraraðilar leggja sig sífellt meira fram um það að skreyta hjá sér og ýta undir jólastemninguna. Í ár verður nýtt hringhús með verslun og veitingum tekið í notkun í hjarta Jólaþorpsins sem án efa mun draga enn fleiri að. Einnig verður meira í boði í lystigarðinum Hellisgerði en áður og verður spennandi að fylgjast með því.

Full þakklætis fyrir góðar viðtökur undanfarin ár hlökkum við til komandi vikna og óskum þess innilega að sem flestir njóti aðventunnar í jólabænum Hafnarfirði. Aðventan er tími samveru með fjölskyldu og vinum í friðsæld og kærleik. Það sem stendur upp úr í aðdraganda hátíðarinnar er að skapa ljúfar og dýrmætar minningar. Við bjóðum ykkur að gera það með okkur í hjarta Hafnarfjarðar.“

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri

 

Jólablað Hafnarfjarðar 2024 – vefútgáfa:

Ábendingagátt