Upplifum leikinn á Thorsplani

Fréttir

Stórleikur Íslands og Frakklands í átta liða úrslitum Evrópumótsins verður sýndur á stórum skjá á Thorsplani kl. 19 á sunnudaginn.  Kynnir á meðan leik stendur er Bryndís Ásmundsdóttir.

ÁFRAM ÍSLAND!

Stórleikur Íslands og
Frakklands í átta liða úrslitum Evrópumótsins verður sýndur á stórum skjá á
Thorsplani á sunnudaginn. Hafnfirðingar og aðrir nærsveitungar eru hvattir til
að mæta á EM-heimavöll Hafnarfjarðar til að hvetja okkar menn áfram og umfram
allt gleðjast.

Leikurinn hefst stundvíslega kl. 19 og eru gestir hvattir
til að mæta tímanlega, koma sér vel fyrir á Thorsplani og njóta. Það er engin
önnur en Bryndís Ásmundsdóttir, söng- og leikkona okkar Hafnfirðinga, sem mun
heiðra áhorfendur leiks með nærveru sinni og stýra hvatningu og söng í hléi á
viðeigandi tímum á meðan á leik stendur. Búast má við mikilli stemningu á
torginu en hvert torgið af fætur öðru hefur bæst við innan sveitarfélaga
landsins í takt við velgengni og árangur íslenska landsliðsins. Þjóðin öll
hefur síðustu vikur sameinast í gegnum fótboltann, hrifist með og fagnað
árangri íslenska liðsins á EM enda um að ræða einstakan viðburð í íslenskri
íþróttasögu. Með þessu vilja aðstandendur sýningar á Thorsplani færa fótboltann
nær Hafnfirðingum og öðrum gestum og gangandi og gera þeim kleift að labba á
„völlinn“, upplifa og njóta.

Sérstakar þakkir fá ISS, Landsbankinn, Trefjar,
Hlaðbær-Colas , Fjarðarkaup og Íslenska kaffistofan fyrir að standa að
EM-samáhorfinu á Thorsplani í samvinnu við Markaðsstofu Hafnarfjarðar og
Hafnarfjarðarbæ. HljóðX sér um uppsetningu á skjánum og tæknilega hlið
framkvæmdar.

Sjáumst í bláu á vellinum!

Hvetjum fólk eindregið til að ganga eða hjóla í bæinn og vekjum athygli á því að Strandgata er lokuð frá kl. 18:15 – 21:15.

Ábendingagátt