Úrskurðarnefnd ógildir framkvæmdaleyfi til Landsnets, áfall segir bæjarstjóri

Fréttir

Það voru Hraunavinir og Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands sem kærðu veitingu framkvæmdaleyfisins.

Í dag ógilti Úrskurðarnefnd
umhverfis- og auðlindamála
framkvæmdaleyfi sem Hafnarfjarðarkaupstaður gaf út til Landsnets vegna Lyklafellslínu 1. Lagning Lyklafellslínu
1 hefur verið forsenda þess að hægt verði að fjarlægja Hamraneslínur og flytja
Ísallínur.  Það voru Hraunavinir og Náttúruverndarsamtök
Suðvesturlands sem kærðu veitingu framkvæmdaleyfisins. „Úrskurðurinn er áfall fyrir sveitarfélagið og ljóst
að áratuga bið eftir því að línurnar hverfi úr Skarðshlíð og Hamranesi styttist
ekki við þennan úrskurð. Nú verður Landsnet að svara því með hvaða hætti þeir
taka það verkefni áfram en það er ljóst að þetta þolir enga bið og bæjarbúar og
bæjaryfirvöld vilja þessar línur burtu. Við eigum fund með þeim í fyrramálið
klukkan níu þar sem meðal annars verður farið fram á skýr svör um
framhaldið“ Sagði Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri Hafnarfjarðarkaupstaðar en
Hafnarfjarðarkaupstaður hefur fjárfest í mikilli uppbyggingu á svæðinu ásamt
lóðarhöfum á svæðinu en gert er ráð fyrir um 520 íbúðum í Skarðshlíðarhverfinu
einu og sér og þar er verið að byggja grunn- leik- og tónlistarskóla ásamt
íþróttasal fyrir um fjóra milljarða króna.

Virðist
ógilding framkvæmdaleyfisins fyrst og fremst vera byggð á þeirri forsendu að
ekki sé sýnt fram á að jarðstrengskostir séu ekki raunhæfir og samanburður á
umhverfisáhrifum þeirra og aðal valkosts hafi ekki farið fram með þeim hætti
sem lög gera ráð fyrir. Línan hefur verið á framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar
2015-2024 og því samþykkt af Orkustofnun. Framkvæmdin hafði einnig farið í
gegnum mat á umhverfisáhrifum.

 „Við
förum núna í það að kanna stöðu sveitarfélagsins í þessu máli og næstu skref en
þetta eru ekki þær fréttir sem við hefðum vonað að fá frá úrskurðarnefndinni. Um leið og við
hörmum þetta erum við ekki að gera lítið úr áhyggjum kærenda. “

Eins og áður hefur komið fram hefur
barátta bæjaryfirvalda í Hafnarfirði fyrir því að Hamraneslínur verði fluttar
úr byggð innan sveitarfélagsins staðið lengi yfir. Árið 2009 var
undirritaður samningur milli Landsnets og Hafnarfjarðarkaupstaðar. Í Þeim
samningi var gert ráð fyrir flutningi á Hamraneslínu í þremur áföngum sem átti
að hefjast árið 2011 og verklok í síðasta lagi árið 2017. Þann 25. október 2012
var ljóst að þetta myndi ekki ganga eftir og var því  undirritaður viðauki
milli Landsnets og Hafnarfjarðarkaupstaðar þar sem kom fram að niðurrif
Hamraneslína og færsla átti að hefjast eigi síðar en 2016 og ljúka eigi síðar
en 2020

„Það var svo í upphafi þessa
kjörtímabils, sem undirritaður var nýr samningur á milli
Hafnarfjarðarkaupstaðar og Landsnets þar sem við töldum að of langt væri
að bíða til ársins 2020 að línurnar færu“ segir Haraldur. Í samningnum segir í
annarri grein  að rífa eigi Hamraneslínu fyrir árslok 2018.  Ljóst er
að miðað við þennan úrskurð mun þetta ekki ganga eftir. „ Frá því að nýr
samningur var undirritaður árið 2015 hafa bæjaryfirvöld barist fyrir því að
staðið væri við samninginn og framkvæmdir hæfust“, segir Haraldur.

Ábendingagátt