Út með dekkjakurlið

Fréttir

Bæjarráð Hafnarfjarðar hefur samþykkt að gúmmíkurli verði skipt út á sparkvöllum við grunnskóla bæjarins, samtals átta völlum. Framkvæmdin mun eiga sér stað strax í sumar.

Bæjarráð Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum rétt í þessu að gúmmíkurli verði skipt út á sparkvöllum við grunnskóla bæjarins, samtals átta völlum. Framkvæmdin mun eiga sér stað strax í sumar og er gert ráð fyrir að frá og með hausti 2016 þá verði kurlið farið af öllum völlunum. Gervigras og gúmmíkurl á íþróttasvæðum FH og Hauka uppfylla gildandi gæðakröfur.  

Notendur valla eiga að njóta vafans

Hafnarfjarðarbær rekur átta fótboltavelli, svokallaða KSÍ velli við alla grunnskóla bæjarins. Bæjarráð Hafnarfjarðar tók ákvörðun um það á fundi ráðsins í morgun að í sumar verði gúmmíkurli skipt út á öllum þessum völlum. Áætlaður kostnaður við framkvæmd er talinn vera í kringum 15 milljónir króna. Þótt ekki sé vísindalega staðfest að kurl valdi heilsutjóni þá þykir rík ástæða að láta alla þá sem nota vellina í frístundum, íþróttum og tómstundum njóta vafans. Hafnarfjarðarbær, FH og Haukar reka til viðbótar tvo stóra velli; á Ásvöllum og í Kaplakrika. Báðir vellirnir uppfylla gildandi gæðakröfur, kurl vallanna er yngra og vottað. 

Ábendingagátt