Útboð á aðkeyptri þjónustu – ábati 111 milljónir

Fréttir

Mikil áhersla hefur verið lögð á að lækka rekstarkostnað Hafnarfjarðarbæjar án þess að skerða þjónustu við bæjarbúa. 

 

Mikil áhersla hefur verið lögð á að lækka rekstarkostnað Hafnarfjarðarbæjar án þess að skerða þjónustu við bæjarbúa. Einn af liðunum í umbótaferli bæjarins snýr að auknum útboðum á aðkeypti þjónustu. Nýlega voru boðnir þjónustuþættir sem snúa m.a að tryggingum, endurskoðun, skólaakstri, alhliða prentlausnum, framleiðslu á mat og ræstingu. Ábati við útboð þessarra þátta á ársgrundvelli er áætlaður rúmar 111 milljónir í samanburði við gildandi samninga. Samtals á fjögurra ára samningstíma er ábatinn rúmlega 443 milljónir.  

 Þáttur ræstinga vegur hæst

 Í kjölfar ítarlegrar úttektar á rekstri Hafnarfjarðarbæjar var ákveðið að fara af stað með útboð á aðkeyptum  þjónustuþáttum sem vega þungt í rekstri sveitarfélagsins. Niðurstöður útboða leiða í ljós fjárhagslega hagræðingu upp á kr. 110.839.461 á næsta rekstrarári eða í heild kr. 443.357.844.- á fjögurra ára samningstímabili. Hér vegur þyngst þáttur ræstinga þar sem sparnaður hljóðar upp á rúmar 89 milljónir króna sem gera í heild rúmar 357 milljónir á samningstímabilinu. Ástæða að baki lækkunar er m.a. yfirfærsla í umhverfsvæna mjúkvaxræstingu auk þess sem árleg hreingerning verður framkvæmd með öðrum hætti. Sparnaður við endurskoðun hljóðar upp á 56% miðað við raunkostnað 2014 eða tæpar 5,8 milljónir á ársgrundvelli. Nýtt útboð í heildartryggingar Hafnarfjarðarbæjar skilar sparnaði upp á rúmar 13 milljónir króna á ári eða um 54 milljónir króna á samningstímanum. Sparnaður í prentlausnum og skólaakstri hljóðar upp á rúma eina milljón króna á ári hvor liður.

Til stendur að bjóða út fleiri þjónustuþætti á nýju rekstrarári og koma þannig útboðum í reglubundinn og fastan farveg innan sveitarfélagsins. Þessar útboðsboðsaðgerðir Hafnarfjarðarbæjar eru liður í hagræðingu og umbótum á rekstri sveitarfélagsins. Með því að draga úr rekstrarkostnaði skapast meira svigrúm til framkvæmda og enn betri þjónustu við íbúa og fyrirtæki á svæðinu.

Ábendingagátt