Úthlutun úr Þróunarsjóði samræmdar móttöku flóttafólks

Fréttir

Félags- og vinnumarkaðsráðherra hefur úthlutað tæplega 20 milljónum króna úr Þróunarsjóði samræmdar móttöku flóttafólks. Þau sveitarfélög sem eru með samning við ráðuneytið um samræmda móttöku flóttafólks geta sótt um styrki í sjóðinn og höfðu Samband íslenskra sveitarfélaga og Fjölmenningarsetur umsjón með úthlutuninni. Alls fengu fjögur sveitarfélög styrk úr sjóðnum. Hafnarfjarðarbær fékk styrki vegna þriggja verkefna. 

Úthlutun úr Þróunarsjóði samræmdar móttöku flóttafólks 

Félags- og vinnumarkaðsráðherra hefur úthlutað tæplega 20 milljónum króna úr Þróunarsjóði samræmdar móttöku flóttafólks. Þau sveitarfélög sem eru með samning við ráðuneytið um samræmda móttöku flóttafólks geta sótt um styrki í sjóðinn og höfðu Samband íslenskra sveitarfélaga og Fjölmenningarsetur umsjón með úthlutuninni. Alls fengu fjögur sveitarfélög styrk úr sjóðnum. Hafnarfjarðarbær fékk styrki vegna þriggja verkefna.

Tilkynning um úthlutun á vef Stjórnarráðsins 

Stafræni virkni og námskeið sem ýta undir vellíðan og valdeflingu 

Hafnarfjarðarbær fékk styrki vegna þriggja verkefna sem snúa að stafrænni virkni, námskeið í foreldrafærni með áherslu á áföll og áfallastreitu og námskeið fyrir flóttakonur með áherslu á valdeflingu og líðan.  

  • Stafrænt virkniúrræði þar sem markmiðið er að búa til hvata hjá flóttafólki að sækja sér menntun eða störf við sitt hæfi og snýst verkefnið um að bjóða einstaklingum upp á stafrænt fjarnámskeið þannig að allir geti sótt námskeiðin óháð búsetu, heilsu eða aðstæðum.
  • Námskeið í foreldrafærni sem er sérútbúið fyrir foreldra flóttabarna og verður einblínt á áföll og áfallastreitu. Auk þess verður lögð áhersla á íslenskt samfélag og breytta menningu til að hjálpa þeim að aðlagast sem best íslensku samfélagi.
  • Námskeið fyrir flóttakonur þar sem lögð er áhersla á valdeflingu og aukna andlega og líkamlega vellíðan flóttakvenna. Lagt er upp með að námskeiðið auki bæði sjálfsskilning og samfélagslegan skilning kvennanna.

Fjögur sveitarfélög fengu styrk  

Reykjanesbær fékk styrk vegna verkefnisins Virkni og aðlögun en þar er meðal annars um að ræða námskeið um skattaskil og notkun á heimabanka, Heilsuveru og Strætó þannig að fólk læri að bjarga sér sjálft. Sveitarfélagið mun einnig bjóða upp á ýmsa virkni fyrir flóttafólk á borð við gönguferðir, leikfimi fyrir konur, fótbolta og menningarkvöld með það að markmiði að valdefla flóttafólk og auðvelda aðlögun þeirra að samfélaginu.

Reykjavíkurborg hlaut styrk fyrir verkefnið MindSpring, en það er að danskri fyrirmynd og snýst um hópastarf fyrir foreldra, ungmenni og börn um aðlögun í nýju landi þar sem fjallað er um málefni sem tengjast lífi þeirra og hvernig þau geta betur tekist á við nýjar aðstæður.

Árborg fékk styrk vegna fræðslu handa starfsfólki grunnskóla og frístunda í sveitarfélaginu til þess að undirbúa þau betur til að taka á móti fjölbreyttum nemendahópum og fjölskyldum þeirra, og hvernig efla megi upplýsingaflæði og tryggja að upplýsingar komist til skila til foreldra flóttabarna og annarra samstarfsstofnana.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra: „Það er mjög mikilvægt að við tökum vel á móti því fólki sem hingað leitar skjóls og stór hluti af því er að auðvelda þeim að kynnast og aðlagast samfélaginu okkar. Það er erfitt að koma í nýjan heimshluta þar sem allt er framandi og öðruvísi en fólk á að venjast. Þau frábæru verkefni sem hlutu styrk að þessu sinni eiga það öll sameiginleg að auðvelda aðlögun fólks og auka fræðslu til þess um mikilvæg málefni, og þannig auðvelda þeim að skapa sér nýtt líf hér á landi.“

Ábendingagátt