Varðveislu- og rannsóknasetur

Fréttir

Nýtt Varðveislu- og rannsóknarsetur Þjóðminjasafns er í uppbyggingu á Tjarnarvöllum í Hafnarfirði. Setur sem markar mikilvæg þáttaskil í þjóðminjavörslu á Íslandi. 

Samningur um nýtt Varðveislu- og rannsóknasetur Þjóðminjasafns Íslands að Tjarnarvöllum í Hafnarfirði hefur verið undirritaður. Þetta nýja setur markar mikilvæg þáttaskil í þjóðminjavörslu á Íslandi. Þar verða kjöraðstæður til varðveislu þjóðminja við rétt öryggisskilyrði og vel búin starfsaðstaða til safnastarfs, kennslu og rannsókna á fagsviði Þjóðminjasafns Íslands sem er höfuðsafn á sviði menningarminja. 

Í húsinu verða aðstæður til sérhæfðrar varðveislu fjölbreytts safnkosts Þjóðminjasafns. Þar verða varðveittir munir og jarðfundnir gripir fornleifarannsókna á Íslands í sérútbúinni aðstöðu til úrvinnslu og þekkingarsköpunar. Húsnæðið er staðsett að Tjarnarvöllum í Hafnarfirði, er 4.270  m² að stærð og er fyrirhugað að Þjóðminjasafnið taki það í notkun um mitt ár 2016. Hönnuður húsnæðis er ArkÞing. Í nýju Varðveislu- og rannsóknasetri Þjóðminjasafns verða öryggisgeymslur fyrir stóran hluta safnkosts Þjóðminjasafns og aðstaða fyrir starfsmenn, sérfræðinga, fræðimenn og nemendur. Fullkomin hita- og rakastýring verður í öryggisgeymslum svo tryggja megi varðveislu viðkvæms safnkosts. Í húsnæðinu verða einnig rannsóknarstofur, forvörsluverkstæði og aðstaða til undirbúnings sýninga. Þá verður aðstaða til kennslu í húsinu en Þjóðminjasafn Íslands er háskólastofnun sem felur í sér mikilvægt hlutverk gagnvart rannsóknaraðilum og námsmönnum. Safnkosti Þjóðminjasafns Íslands verður komið fyrir í fullbúnu húsnæði í áföngum á næstu tveimur árum, en hluti safnkost hefur til þess verið geymdur við bráðabirgðaaðstæður á Seltjarnarnesi, í Reykjavík og Kópavogi. Hluti safnkostsins verður áfram varðveittur í húsnæði safnsins í Kópavogi, þar sem Ljósmyndasafn Íslands í Þjóðminjasafni verður áfram til húsa.

Hafnarfjarðarbær fagnar komu Þjóðminjasafns til bæjarfélagsins og þeirri viðbót við flóru hafnfirsks atvinnulífs sem safn og setur fela í sér. 

Mynd er í eigu: veitingageirinn.is   

 

Ábendingagátt