Tilboðslóðir í Skarðshlíð

Fréttir

Sex fjölbýlishúsalóðir eru nú komnar í auglýsingu í Skarðshlíð, hverfi sem er í skjóli hlíðarinnar sunnan og vestan í Ásfjalli. Um er að ræða lóðir fyrir 18 fjölbýlishús með 167 íbúðum í heild sem meðal annars henta vel fyrir barnafjölskyldur.

Fyrir sjö árum síðan voru íbúar í Hafnarfirði 25.890 talsins. Í dag er talan komin upp í 28.450 og fer hækkandi. Eftirspurn eftir íbúðum á svæðinu er mikil og miða breytingar á skipulagi, uppbygging innviða og sala lóða að því að hægt sé að svara eftirspurn í auknum mæli og taka vel á móti vaxandi fjölda. Sex fjölbýlishúsalóðir eru nú komnar í auglýsingu í Skarðshlíð, hverfi sem er í skjóli hlíðarinnar sunnan og vestan í Ásfjalli. Um er að ræða lóðir fyrir 18 fjölbýlishús með 167 íbúðum í heild sem meðal annars henta vel fyrir barnafjölskyldur.

Sá hluti Skarðshlíðarhverfis sem nú er verið að auglýsa er um 30 ha að stærð upp við hlíðina sunnan og vestan í Ásfjalli. Hlíðin hallar mót suðri og er því í skjóli fyrir norðan- og austanáttum. Annað svæði ofar í hlíðinni, ætlað einbýlis-, par- og raðhúsum, er í hönnunar- og skipulagsferli sem ráðgert er að ljúki í upphafi næsta árs. Í hönnun Skarðshlíðarhverfisins í heild er leitast við að hafa sjálfbæra þróun, grænt yfirbragð og vistvænt skipulag að leiðarljósi og skapa þannig eftirsóknarvert búsetuumhverfi. Fjölbýlishúsin verða þungamiðja hverfisins og mun byggðin svo greinast upp í hlíðina með rað- og parhúsum neðst en einbýlishúsum ofar þar sem landhalli er meiri. Á Völlunum búa í dag í kringum 5.500 einstaklingar sem flestir eru á aldrinum 21-40 ára.

SkardshlidHafnarfjordur

Mikil fjölgun íbúa og fyrirtækja á Völlum kallar á breytt skipulag og uppbyggingu innviða

Nýsamþykktar breytingar á aðalskipulagi og deiliskipulagi í Skarðshlíðarhverfi fela m.a. í sér að stærri hluti svæðisins verður íbúðabyggð og sá hluti sem ætlaður var heilsugæslu,  hjúkrunarheimili, skóla og leikskóla, verður grunnskóli og leikskóli.  Mikil fjölgun íbúa á svæðinu og fjölmennir árgangar kalla á aðlögun og uppbyggingu. Nýverið opnaði leikskólinn Bjarkalundur við Bjarkavelli, fjögurra deilda leikskóli fyrir 100 börn. Vonir standa svo til þess að framkvæmdir við fyrsta áfanga nýs grunnskóla í Skarðshlíð hefjist haustið 2017. Hraunvallaskóli er í dag eini grunnskólinn á svæðinu og er hann orðinn með þeim stærri á landinu. „Endurhugsun og áherslubreytingar í byggðaþróun kalla á breytingar á skipulagi sveitarfélaga. Síðustu mánuðir og ár hafa farið í endurskipulagningu á þessu svæði í Skarðshlíð sem nú er komið í auglýsingu. Samhliða erum við að byggja upp nauðsynlega innviði s.s. leikskóla og grunnskóla þannig að við getum tekið vel á móti nýju fólki og tryggt góða þjónustu til þeirra sem á svæðinu búa. Ég vonast svo til þess að framkvæmdir við fjölbýlishúsin fari af stað snemma á vormánuðum 2017“ segir Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar.

Allar nánari upplýsingar um fjölbýlishúsalóðir í auglýsingu er að finna hér

Ábendingagátt