Vefur bæjarins tilnefndur til íslensku vefverðlaunanna

Fréttir Verkefnasögur

Vefur Hafnarfjarðarbæjar hafnarfjordur.is er tilnefndur til íslensku vefverðlaunanna sem opinberi vefur ársins 2022 ásamt fjórum öðrum vefjum. Eldri vefur þjónaði bænum frá árinu 2016 og hlaut sá vefur íslensku vefverðlaunin sem besti opinberi vefurinn í ársbyrjun 2017. 

Tilnefning í flokki opinberra vefja  

Vefur Hafnarfjarðarbæjar hafnarfjordur.is er tilnefndur til íslensku vefverðlaunanna sem opinberi vefur ársins 2022 ásamt fjórum öðrum vefjum. Sextíu og fimm verkefni eru tilnefnd til vefverðlaunanna 2022 í þrettán flokkum sem endurspegla breidd þeirra verkefna sem íslenskur vefiðnaður kemur að. Tilkynnt verður um vinningshafa við hátíðlega athöfn Gamla bíó föstudagskvöldið 31. mars. 

Áhersla á gott efni  

Nýr vefur Hafnarfjarðarbæjar var opnaður 10. nóvember sl. með stafrænni ráðstefnu í Bæjarbíói eftir ítarlegan undirbúning. Þá hafði eldri vefur þjónað bænum vel frá árinu 2016 og hlaut sá vefur íslensku vefverðlaunin sem besti opinberi vefurinn í ársbyrjun 2017. Á síðustu sex árum hefur hins vegar margt breyst, bærinn er kominn með nýja ásýnd og nýtt hönnunarkerfi sem nýr vefur tekur m.a. mið af. Stór hópur starfsfólks kom að þarfagreiningu, uppbyggingu og þróun á nýjum vef auk rýni og prófana frá íbúum og öðrum notendum. Sérstök áhersla var lögð á vinnu við efni vefjarins, öfluga leitarvél, skýrt leiðarkerfi og gagnvirkni í formi reiknivéla, uppflettinga og síana á efni.  

Lesa má söguna á bak við nýjan vef í verkefnasögu um stafræna umbreytingu bæjarins 

 

Mikill heiður og hvatning fyrir sveitarfélagið  

Það eru Samtök vefiðnaðarins, SVEF, sem veita vefverðlaunin á hverju ári. Það er mikill heiður og hvatning fyrir sveitarfélagið og stóran hóp þátttakenda í verkefninu að hljóta þessa tilnefningu frá SVEF og fagfólkinu sem koma að íslensku vefverðlaununum. Tilnefningin er sterk vísbending um að nýr vefur þjóni mikilvægum tilgangi sínum og markmiðum um einfalt og greitt aðgengi að upplýsingum um þjónustu og verkefni sveitarfélagsins fyrir alla viðeigandi aðila.   

Aðrar tilnefningar í flokki opinberra vefja  

  • Island.is 
  • Listasafn.is 
  • Mosfellsbaer.is  
  • Hafnarfjordur.is 
  • Ofbeldisgátt á 112.is 

Tilnefningar 2022 – SVEF  

 

Ábendingagátt