Vegan-festival á sólskinssunnudeginum 31. ágúst

Fréttir

Vegan festival verður á Thorsplani sunnudaginn 31. ágúst frá kl. 13-16. Frábær fjölskylduskemmtun fyrir græn- og fagurkera sem og öll önnur.

Heilsubærinn Hafnarfjörður vegan í einn dag

„Þetta er frábært tækifæri til að sjá að veganismi er ekki megrunarkúr eða tískubylgja heldur lífsstíll. Þetta er hátíð sem fagnar þessum fallega lífsstíl og býður öll velkomin, óháð stétt og stöðu,“ segir Aldís Amah Hamilton, formaður Samtaka Grænkera á Íslandi. „Tilvalið fyrir börnin, ömmurnar og afana… öll þar á milli auðvitað.“

Samtökin í samvinnu við Hafnarfjarðarbæ slá upp fjölskylduskemmtun og matarveislu á Thorsplani í Hafnarfirði sunnudaginn 31. ágúst 2025 milli kl. 13-16.

„Við verðum með besta matinn á höfuðborgarsvæðinu til sölu! Einnig verða fyrirtæki sem bjóða heimilis- og snyrtivörur. Svo er tveir hoppukastalar fyrir ólíka aldurshópa,“ segir Aldís.

„Sá stærri sló rækilega í gegn síðast og var þétt setinn, en við stöndum vaktina svo enginn slasist. Svo verðum við einnig með skemmtiatriði,“ segir Aldís hvetjandi en hátíðin er nú haldin í níunda sinn.

„Þetta er virkilega gaman. Mætingin er alltaf góð. Hátt í 1000 manns mættu í fyrra skilst mér. Aðsóknin var svo góð að maturinn seldist nánast upp! Fjölskyldur skemmtu sér saman og það er yndislegt að við fáum að kveðja sumarið á þennan veg.“

Aldís horfir til þess að ágústmánuður sé tími útihátíða; Þjóðhátíð, Hinsegindagar, Menningarnótt og Veganhátíðin rúsínan í blámánaðarendanum. „Stórar hátíðir og svo við. Við gefum ekkert eftir,“ segir hún og hvetur fólk sem langar að vita meira um veganisma, og þá sérstaklega vegan matarúrval, að mæta.

„Já, kynnast þessu geggjaða gúmmelaði sem stendur öllum til boða alla daga ársins,“ segir hún.

„Það er líka alltaf gott veður á Vegan hátíðinni – við búumst ekki við neinu öðru núna. Komið með sólarvörn.“

Ábendingagátt