Veisla við Flensborgarhöfn

Fréttir

Blásið verður til tveggja daga hátíðarhalda um helgina í Hafnarfirði í tilefni Sjómannadagsins. Dagurinn skipar stóran sess í hugum Hafnfirðinga enda saga sjómanna á svæðinu bæði innihaldsrík og djúpstæð.  

Blásið verður til
tveggja daga hátíðarhalda um helgina í Hafnarfirði í tilefni Sjómannadagsins. Fjöldi
einstaklinga, fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka hefur tekið sig saman og
sett upp metnaðarfulla og heimilislega dagskrá sem höfðar til allrar
fjölskyldunnar. Sjómannadagurinn skipar stóran sess í hugum Hafnfirðinga enda
saga sjómanna á svæðinu bæði innihaldsrík og djúpstæð.  

Hafnfirðingar hafa haldið Sjómannadaginn hátíðlegan allt
frá árinu 1953 og stendur ekkert til að gefa nokkuð eftir við hátíðarhöldin
þrátt fyrir fækkun skipa við höfnina og þróun í nýjar atvinnuáttir á svæðinu. Höfnin
hefur breyst úr því að vera iðandi af lífi tengdu fiski og fiskvinnslu í það að
vera iðandi af fjölbreyttu lista- og menningarlífi auk þess sem mikið af
smábátum, kajökum og skútum eru á svæðinu. Þannig hafa fjölmargir listamenn
sett upp vinnustofur í Fornubúðum við Flensborgarhöfn auk þess sem 28
vinnustofur eru nú í Íshúsi Hafnarfjarðar. Um helgina verða vinnustofur
listamanna opnar fyrir gesti og gangandi auk þess sem hægt verður að skoða fiska
í körum á bryggju, kíkja á myndlistarsýningu á vegum Byggðasafns Hafnarfjarðar
tengdri sjósókn í sýningarsal Íshússins og taka þátt í listasmiðjum hjá
hvorutveggja Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar sem vinnur með efni úr Höfðaskógi
og hjá Hafnarborg þar sem unnið verður að gerð báta og fleka.

Komdu heim í
Hafnarfjörðinn

Fjölbreytt dagskrá verður í boði við Flensborgarhöfn bæði
laugardag og sunnudag og opnar hátíðarsvæðið klukkan 11 báða dagana. Björgunarsveit
Hafnarfjarðar býður meðal annars upp á þrautabraut í sjó, rennibraut, gámasig,
kassaklifur, fluglínutækni, koddaslag og björgunarsýningu. Siglingaklúbburinn
Þytur verður með opið hús og býður öllum áhugasömum að máta sig við árabáta og
kajaka auk þess sem boðið verður upp á skútusiglingar á kænum og kjölbátum. Þá
sér Slysavarnardeildin Hraunprýði um að enginn verði svangur. Skemmtisigling í
minni Hafnarfjarðar verður í boði frá kl. 13-17 á Sjómannadaginn sjálfan.
Siglingin hefur alltaf verið vinsæl og má gera ráð fyrir að gott veður um
helgina tryggi mikla aðsókn, ekki bara Hafnfirðinga heldur líka gesta víðsvegar
af sem sjá ánægjuna í því að sækja bæinn heim og fagna með bæjarbúum.  

Ábendingagátt