Veitur virkja viðbragðsáætlun

Fréttir

Í ljósi þess að næstu daga stefnir í eitt mesta kuldakast á suðvesturhorni landsins síðan árið 2013 hafa Veitur virkjað viðbragðsáætlun í rekstri hitaveitunnar. Sú áætlun gengur meðal annars út á að hvetja fólk til þess að fara sparlega með heita vatnið svo öll hafi nægt vatn til húshitunar.

– fólk hvatt til að fara sparlega með heitt vatn

Sjá tilkynningu á vef Veitna 

Í ljósi þess að næstu daga stefnir í eitt mesta kuldakast á suðvesturhorni landsins síðan árið 2013 hafa Veitur virkjað viðbragðsáætlun í rekstri hitaveitunnar. Sú áætlun gengur meðal annars út á að hvetja fólk til þess að fara sparlega með heita vatnið svo öll hafi nægt vatn til húshitunar.  Sé tekið mið af spálíkönum, sem nýta veðurspár til að áætla notkun, er útlit fyrir að hitaveitan á höfuðborgarsvæðinu fari að þolmörkum á föstudag og fram yfir helgi.
Um 90% af hitaveituvatni er notað til húshitunar og því skiptir afar miklu máli að fólk sé meðvitað um hvernig nýta á það sem best. 

Fólk er hvatt til að gera eftirfarandi:

  • Hafa glugga lokaða
  • Hafa útidyr ekki opnar lengur en þörf krefur
  • Láta ekki renna í heita potta
  • Stilla ofna svo þeir séu heitir að ofan en kaldir að neðan
  • Varast að byrgja ofna, t.d. með síðum gluggatjöldum eða húsgögnum
  • Minnka þrýsting á snjóbræðslukerfum

Fleiri hollráð um betri nýtingu heita vatnsins
Mikilvægt er að hafa í huga að þeir köldu dagar sem við höfum upplifað undanfarið hafa verið í hæglátu veðri. Nú er hins vegar útlit fyrir töluverðan vind sem veldur mikilli kælingu ofan á það frost sem er í kortunum.

Mikil aukning á notkun

Kerfi hitaveitunnar er stórt og umfangsmikið og er í sífelldri uppbyggingu sem miðuð er að spám um fólksfjölgun og byggingamagn. Það sem ekki var fyrirséð í langtímaspám var sú aukning sem verið hefur í notkun á hvern íbúa sl. ár. Til samanburðar hefur söguleg aukning i hitaveitunni verið 1,5% – 4% milli ára en heildarnotkunin í ár er 11% meiri en á síðasta ári.

Mikið hefur verið framkvæmt í hitaveitunni undanfarin ár til að mæta aukinni eftirspurn, m.a. hefur varmastöð í Hellisheiðarvirkjun, sem framleiðir heitt vatn fyrir höfuðborgarsvæðið, verið stækkuð, dælugeta kerfisins aukin og borholur á lághitasvæðum verið hvíldar yfir sumartímann til að auka aðgengilegan forða yfir vetrartímann. 

Til að bregðast við kuldakastinu sem nú er í kortunum eru Veitur að hækka hitastig vatnsins sem notendur fá frá virkjunum og borholum á lághitasvæðum í Reykjavík og Mosfellsbæ, kerfið hefur verið fínstillt svo það anni sem allra mestu og unnið er að lagfæringum á nýjum dælum er keyptar voru í haust og auka áttu dælugetu kerfisins. Kallaðir hafa verið til erlendir sérfræðingar til verksins. 

Heita vatnið er sameiginleg auðlind okkar allra og með samstilltu átaki viðskiptavina má minnka notkun þannig að hitaveitan standist álagið sem kuldakastið veldur.

Mynd: Frostnálar á hitaveitustokki. Ljósmyndari: Pálmi Símonarson.

Ábendingagátt