Vel gert Vinnuskóli Hafnarfjarðar!

Fréttir

Starfsmenn í Vinnuskóla Hafnarfjarðar ljúka störfum sínum nú í vikunni. Bæjarstjóri notaði góða veðrið í gær og heimsótti nokkra hópa til að fræðast betur um verkefni og störf þeirra í sumar og þakka þeim fyrir vel unnin störf.

Starfsmenn í Vinnuskóla Hafnarfjarðar, sem hafa verið við störf frá því í upphafi júní, ljúka störfum sínum nú í vikunni. Eldri starfsmenn vinnuskóla í miðbæjarhóp,  hópum hjá íþróttafélögum og á gæsluvelli starfa eitthvað áfram. Bæjarstjóri notaði góða veðrið í gær og heimsótti nokkra hópa til að fræðast betur um verkefni og störf þeirra í sumar og þakka þeim fyrir vel unnin störf.

Mikilvægur hlekkur af heildinni

Vinnuskólinn sinnir fyrst og fremst umhverfismálum og á þannig stóran þátt í því að hreinsa bæinn og hirða gróður, götur og göngustíga yfir sumartímann. Þannig starfa ungmenni á aldrinum 14-16 ára yfirleitt innan sinna heimahverfa nema um sé að ræða störf á öðrum vettvangi eins og á gæsluvelli, í íþróttahúsum, jafningjafræðslu eða í miðbæjarhóp.  Starfsfólk Vinnuskóla Hafnarfjarðar sinnir mikilvægu hlutverki í því að skapa vænta ásýnd bæjarins, að hann sé þrifalegur og snyrtilegur á að líta og ekki síst skemmtilegur fyrir íbúa og ferðamenn sem sækja bæinn heim.  Þetta árið tókst starfsfólki að slá allt bæjarland en komst því miður ekki í að hreinsa öll beð í öllum hverfum enda hefur tíðin verið með eindæmum góð og spretta og vöxtur í takt við það. 

Ekki bara skemmtun, gras, rusl og arfi

Almennir hópar í Vinnuskóla Hafnarfjarðar hafa nú í sumar fengið ýmsa fræðslu samhliða störfum sínum fyrir bæinn sinn. Þannig hafa þeir sem orðnir eru 17 ára fengið fræðslu um vinnutengd réttindi sín og lestur launaseðla.  

Jafningjafræðarar hafa svo í sumar tekið á móti hópum í jafningjafræðslu í Ungmennahúsið á Suðurgötu. Hver hópur getur fengið a.m.k. eina fræðslu yfir sumarið og fer umræðuefnið fer eftir því hvað brennur á nemendum hverju sinni. Þannig hafa jafningjafræðarar í sumar m.a. tekið fyrir samskipti kynjanna, sjúka ást, samfélagsmiðla, karlmennskuna og fleira. Áhugaverðar umræður hafa skapast með öllum hópum sem allir búa að sinni eigin reynslu, þekkingu og skoðunum sem vert er að viðra og ræða. 

  • Allar upplýsingar um Vinnuskóla Hafnarfjarðar er að finna HÉR
  • Vinnuskóli Hafnarfjarðar er á Facebook

Miklar þakkir til starfsfólks Vinnuskóla Hafnarfjarðar fyrir framlag ykkar í sumar!
Gangi ykkur vel í skólanum!

Ábendingagátt