Verkland fær Svansvottun fyrir Áshamar 42-48

Fréttir

Byggingarverktakafyrirtækið Verkland hefur hlotið sína fyrstu Svansvottun fyrir fjölbýlishús við Áshamar 42–48. Svansvottun tryggir að húsnæði sé heilnæmt.  

 Fleiri byggingar Svansvottaðar í Hafnarfirði 

Byggingarverktakafyrirtækið Verkland hefur hlotið sína fyrstu Svansvottun fyrir fjölbýlishús við Áshamar 42–48 hér í Hafnarfirði. Verkland vinnur einnig að því að Svansvotta fjölbýlishús að Baughamri samkvæmt nýjum byggingarviðmiðum Svansins. 

Valdimar Víðisson bæjarstjóri fagnar Svansvottaðir uppbyggingu í Hafnarfiði. „Það er metnaðarmál fyrir okkur að huga að umhverfinu og við fögnum því með Verklandi að ná þessum áfanga. Hann þýðir að enn fleiri Hafnfirðingar búa í heilsusamlegu húsnæði, byggt eftir ströngum gæðakröfum,“ segir hann en húsnæðið að Áshamri er það þriðja sem fær hér í Hafnarfirði og annað verkefnið í hverfinu. 

Húsnæðið stendur á mörkum byggðar og upplendis Hafnarfjarðar og horfa íbúarnir að Krýsuvík, einni helstu náttúruperlu landsins. „Það er virkilega gaman að sjá hvernig hönnunin fellur að umhverfinu um leið og við vitum að húsnæðið sjálft er bæði umhverfisvænt og mannvænt.“ 

Verkland stolt af verkinu

Ingi Már Ljótsson, verkefnastjóri hjá Verklandi, segir Verkland hafa markvisst unnið að því að bæta umhverfisáhrif framkvæmda sinna. „Verkland hefur sýnt mikinn metnað í umhverfismálum og skarað fram úr í ýmsum þáttum vottunarferlisins.“ Á vef Svansins þar sem sagt er frá vottuninni er það einmitt nefnt.  

„Sérstaklega má nefna úrgangsflokkun, þar sem fyrirtækið hefur náð einstaklega góðum árangri og sýnt fram á mjög háa hlutfallslega nýtingu og endurvinnslu byggingarúrgangs. Gaman er að segja frá því að fyrirtækið fjárfesti til að mynda í moltuvél til að vinna lífrænan úrgang á staðnum, en markmiðið er að nýta moltuna sem áburð á lóðina í kringum byggingarnar og þannig loka hringrásinni á umhverfisvænan hátt,“ segir þar. 

Bærinn hvetur til vottunar

Hafnarfjarðarbær hefur stutt við þá þróun að fyrirtæki kjósi að byggja umhverfisvænt með afslætti af lóðum og gatnagerðargjöldum fyrir umhverfisvottaðar byggingarframkvæmdir.  

Ingi segir það hafa flýtt fyrir sjálfbærri þróun í byggingariðnaði. „Afslátturinn kemur til móts við þann kostnað sem felst í Svansvottun fyrir leyfishafa,“ segir hann og að með þessari vottun sýni Verkland að umhverfisvottaðar byggingar séu bæði raunhæfar og framkvæmanlegar fyrir íslenskan byggingargeira. 

 

Hvað fæst með Svansvottun? 

Bergþóra Góa Kvaran, sérfræðingur hjá Umhverfis- og orkustofnun, bendir á í grein á Vísi að fyrir almenna kaupendur snúist Svansvottun um meira en umhverfismál. Vottunin hafi raunveruleg og mælanleg áhrif á betri innivist fólks. Hún listar hvað Svansvottuð íbúð þarf að hafa: 

  • Nægileg dagsbirta Svansvottuð íbúð þarf hún að uppfylla kröfur um dagsbirtu sem tryggir það að rýmin njóti hámarksdagsbirtu þegar hún er til staðar. 
  • Hreinna inniloft Flestar Svansvottaðar byggingar eru með loftræsikerfi sem tryggir ferskt loft allan sólarhringinn – án þess að þurfi að opna glugga. 
  • Minni efnasúpa Efni í Svansvottuðum byggingum þurfi að vera annaðhvort vottuð af traustum umhverfismerkjum eða standast strangar kröfur um efnainnihald.  
  • Rakaforvarnir og vandað verklag Sérstakur rakavarnarfulltrúi sér til þess að byggingarefni séu rétt meðhöndluð á framkvæmdatíma og tryggir frágang til að fyrirbyggja rakaskemmdir. 

Ávinningur í að fjárfesta í Svansvottuðu húsnæði sé því mikill. 

Á mynd: Ingi Már Ljótsson, frá Verklandi, Valdimar Víðisson, bæjarstjóri, Gísli J. Johnsen og Þröstur Auðunsson frá Verklandi

Ábendingagátt