Vertu með í Ratleik Hafnarfjarðar

Fréttir

Hundruð hafa nú þegar hafið og jafnvel lokið leik í Ratleik Hafnarfjarðar þetta sumarið. Lögð eru út 27 merki vítt og breitt um uppland Hafnarfjarðar og í einhverjum tilfellum inn í nágrannasveitarfélögin.

Nýtt í hverjum mánuði hjá bæjarstjóra

Hundruð hafa nú þegar hafið og jafnvel lokið leik í Ratleik Hafnarfjarðar þetta sumarið. Einhver eru komnir á hring númer tvö og búin að draga fleiri með sér. Þannig virkar ratleikur Hafnarfjarðar, ekki bara skemmtilegur heldur líka mjög smitandi. Ratleikurinn stendur yfir frá júní til september ár hvert.

„Við hjónin erum að taka þátt í fyrsta skipti núna í ár. Markmiðið er að finna öll 27 merkin og njóta þess að uppgötva nýjar perlur. Við erum markvisst að taka heilsuna í gegn enda ekki annað hægt í heilsubænum Hafnarfirði þar sem náttúruperlur og ævintýri eru við hvert fótmál,“ segir Valdimar Víðisson bæjarstjóri Hafnarfjarðar. Þau hjónin hafa um árabil prófað eitthvað nýtt í hverjum mánuði og ratleikurinn nýjasta nýtt hjá þeim í júlí. „Guðni Gíslason, sem á heiðurinn af þessum magnaða ratleik, skoraði á mig að taka þátt og ég tek áskoruninni með brosi á vör.“

Leit að 27 merkjum með ratleikskorti

Lögð eru út 27 merki vítt og breitt um uppland Hafnarfjarðar og í einhverjum tilfellum inn í nágrannasveitarfélögin. Ratleikurinn á sér langa sögu og hefur orðið til þess að auka og efla útivist, áhuga og þekkingu Hafnfirðinga og vina Hafnarfjarðar á upplandi bæjarins. Fólk hefur þannig kynnst nýjum og áhugaverðum stöðum, minjum, mannvistarleifum og jarðmyndunum. Ratleikur Hafnarfjarðar er samstarfsverkefni Hönnunarhússins ehf. og Hafnarfjarðarbæjar.

Þátttakendur leita merkjanna með fríu og vönduðu ratleikskorti og merkja við lausnarorð. Allir sem skila lausnum eru með í útdrætti um Léttfeta, Göngugarp og Þrautakóng sem fá vegleg verðlaun þegar leik lýkur. Allir sem hafa fundið a.m.k. 9 merki eru hvattir til að skila inn lausnum í síðasta lagi 23. september. Uppskeruhátíð ratleiksins er haldin árlega í lok september og alltaf fullt hús.

Myndir/Guðni Gíslason

Ábendingagátt