Vetrarfrí í Hafnarfirði

Fréttir

Frítt er í sund í vetrarfríi grunnskólanna og söfnin bjóða uppá spennandi dagskrá fyrir grunnskólabörn og fjölskyldur þeirra.

Vetrarfrí er í grunnskólum Hafnarfjarðar mánudaginn og þriðjudaginn 21.-22. febrúar og víðar um land. Af því tilefni er m.a. frítt í sund fyrir börn og fullorðna þessa daga í Ásvallalaug, Suðurbæjarlaug og Sundhöll Hafnarfjarðar.

Fjarsjodsleit-um-HafnarfjordHeilsubærinn Hafnarfjörður í samvinnu við Hugmyndabankann býður börnum og fjölskyldum þeirra að spreyta sig á skemmtilegum ratleik í nærumhverfinu í vetrarfríinu sem Margrét Ýr Ingimarsdóttir tveggja barna móðir og kennari í Hvaleyrarskóla hefur tekið saman. Þá viðrar vel til ýmissa vetraríþrótta og tilvalið að draga fram snjóþotur, bretti og skíði og spreyta sig í næstu brekku eða gönguskíðabrautunum sem lagðar hafa verið á Óla Run túni og Hvaleyrarvelli .

Bókasafn Hafnarfjarðar verður með dulmálssmiðju og allskonar bækur fyrir unga og upprennandi spæjara uppivið í vetrarfríinu. Barna- og ungmennadeildin tekur vel á móti grunnskólabörnum, spil verða í boði um allt bókasafnið, og svo verður Intrix á svæðinu frá kl. 17:00 á þriðjudaginn með sýndarveruleikabúnaðinn sinn, og um að gera að mæta og prófa – en búnaðurinn hentar krökkum 6 ára og eldri og er líka ótrúlega skemmtilegur fyrir mömmur og pabba.

Pakkhús Byggðasafns Hafnarfjarðar verður opið í vetrarfríinu og hægt að taka þátt í skemmtilegum og fróðlegum ratleik sem leiðir alla fjölskylduna um safnið, prufa að vera fornleifafræðingur á uppgraftrarsvæðinu eða spila gamla tölvuleiki á borð við Space invaders og Super Mario bros. Þá býður Hafnarborg grunnskólabörnum að koma og taka þátt í skemmtilegri og skapandi listasmiðjum á vegum safnsins.

Laugardagur 19. febrúar

  • Byggðasafn Hafnarfjarðar opið kl. 11-17. Ratleikur og áhugaverðar sýningar.
  • Músíkmóment á Bókasafni Hafnarfjarðar kl. 13. Silja Rós flytur eigin tónlist.
  • Sýningarnar Lengi skal manninn reyna og Fáeinar vangaveltur um ljósmyndun – III. hluti í Hafnarborg. Opið kl. 12-17.

Sunnudagur 20. febrúar

  • Byggðasafn Hafnarfjarðar opið 11-17. Ratleikur og áhugaverðar sýningar.
  • Sýningarnar Lengi skal manninn reyna og Fáeinar vangaveltur um ljósmyndun – III. hluti í Hafnarborg.  Opið kl. 12-17. Sýningarstjóraspjall um Lengi skal manninn reyna, yfirlitssýningu á verkum Þorvaldar Þorsteinssonar, kl. 14. Nánar á hafnarborg.is

Mánudagur 21. febrúar

  • Kl. 6:30-22 FRÍTT Í SUND í Ásvallalaug, Suðurbæjarlaug og Sundhöll (til kl. 21)
  • Byggðasafn Hafnarfjarðar opið kl. 11-16. Barnaleiðsögn um safnið kl. 13.
  • Litróf tilfinningannna-listasmiðja í Hafnarborg kl. 13-15. Boðið verður upp á mismunandi aðferðir við gerð myndverka með áherslu á litanotkun og tengingu lita við tilfinningar. Smiðjan hentar börnum á grunnskólaaldri en öll eru velkomin sem vilja og hafa áhuga. Nánar á hafnarborg.is
  • Höfundur í heimsókn á Bókasafni Hafnarfjarðar kl. 17. Þórunn Jarla Valdimarsdóttir les úr bók sinni, Bærinn brennur.

Þriðjudagur 22. febrúar

  • Kl. 6:30-22 FRÍTT Í SUND í Ásvallalaug, Suðurbæjarlaug og Sundhöll (til kl. 21)
  • Klippa, líma, lita í Hafnarborg kl. 13-15. Unnið verður með aðferðir klippimynda (e. collage) og listaverkin unnin áfram með teikningu/málun. Nánar á hafnarborg.is
  • Byggðasafn Hafnarfjarðar opið kl. 11-16. Ratleikur og áhugaverðar sýningar.
  • Dulmálssmiðja og sýndarveruleikir á Bókasafni Hafnarfjarðar kl. 13 . Létt og skemmtileg smiðja fyrir forvitna krakka í vetrarfríi. Sýndarveruleikaspilun frá kl. 17.

 

Þá hefur heilsubærinn Hafnarfjörður tekið saman heilt stafróf af hugmyndum að fjölmörgu spennandi og skemmtilegu sem fólk getur tekið sér fyrir hendur heimavið eða í næsta nágrenni. Þar er hægt að nálgast fullt af hugmyndum að einhverju nýju og öðruvísi að gera einn eða með fjölskyldunni. Hér á vefnum er einnig hægt að nálgast lista yfir sérstæð náttúrufyrirbrigði og áhugaverða staði og fjölda göngu- og hjólaleiða sem liggja um Hafnarfjörð.

Heilsubærinn Hafnarfjörður óskar íbúum og vinum Hafnarfjarðar gleðilegs vetrarfrís!

Ábendingagátt